132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

26. mál
[14:50]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get glatt ræðumann með því að það stendur nú til að fara beint þangað eftir að þessari umræðu lýkur. Þar mun ég m.a. sitja við hringborð og ræða verkefni sveitarfélaganna og samskipti þeirra við ríkið og ég mun ekki draga af mér í því frekar en endranær að berja á ríkinu sem hefur af mikilli harðýðgi og óbilgirni í raun gengið fram í samskiptum við sveitarfélögin meira og minna samfellt í einn og hálfan áratug. Það sést best á því að þau hafa verið rekin með tapi nánast hvert einasta ár síðan um 1990 og safnað skuldum á sama tíma og ríkið lækkar skatta og montar sig af því að greiða niður sínar skuldir.

Það er algerlega ljóst að mörg sveitarfélög treysta sér hreinlega ekki af stað í þetta brýna verkefni vegna þess að þau hafa ekki tekjustofna til þess. Annars staðar skortir kannski eitthvað á pólitískan vilja. Hv. þingmaður nefndi Kópavog þar sem þessar hugmyndir voru réttilega uppi í bæjarstjórnarkosningum fyrir nokkrum árum. En þar hefur setið meiri hluti sem greinilega hefur ekki haft metnað til þess eða talið sig hafa efni á því — sem er nú kúnstugt þó þar sem um stórt og sterkt sveitarfélag er að ræða — að t.d. taka einhver skref í þessa átt eins og Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög hafa gert. Það er lofsvert og sýnir að menn meta þetta mál svo mikils að þeir vilja ekki una því að bíða bara eftir því að fá ríkið til samstarfs við sig heldur vilja taka einhver skref og leggja af stað. Gallinn er hins vegar sá að það er hætt við að það verði þá fyrst og fremst fjárhagslega best settu sveitarfélögin sem telji sig komast af stað og þar með geti þetta orðið til þess að auka enn á mismunun og aðstöðumun íbúanna eftir því hversu vel í stakk búin sveitarfélög þeirra eru til að veita þessa þjónustu.

Því er mjög brýnt að á þessu sé tekið samræmt og að þetta verði nálgast sem grundvallarréttindamál sem allir íbúar landsins eigi að hafa jafna stöðu til. Þá þarf ríkisvaldið að koma til sögunnar með tekjustofna og það þarf að taka þetta mál líka inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þannig að mismunandi aðstaða sveitarfélagana og mismunandi kostnaður við að veita þessa þjónustu eftir íbúafjölda, tekjum og landfræðilegum aðstæðum (Forseti hringir.) sé þá líka vegin inn í dæmið.