132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:03]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Sú tillaga sem ég mæli fyrir er hér endurflutt. Hún var lögð fram á síðasta Alþingi en var það seint á ferðinni að ekki vannst svigrúm til að taka hana þá til umræðu. Eigi að síður hefur tillagan fengið verulega umfjöllun í fjölmiðlum, vakið mikla athygli sem eðlilegt er þar sem hér er vakin athygli á að unnt er að stytta leiðina milli Borgarfjarðar og Akureyrar um 40 km eða svo ef farinn er Stórisandur og 40 km til viðbótar ef farið er um Kaldadal.

Ýmsir líta á þessa leið sem óraunhæfa af þeim sökum að Sprengisandur liggur hátt og einnig leiðin frá Kjalvegi niður í Skagafjörð sunnan Blöndulóns. Á hinn bóginn hygg ég að þær athuganir sem gerðar hafa verið bendi til þess að hvorki sé við því að búast að veður séu válynd á þessari leið né verri en á þeim heiðum sem nú eru farnar né víða þar sem vegir liggja um byggð.

Auðvitað má velta því fyrir sér hvort þessi tillaga sé í samræmi við þau nútímaviðhorf sem uppi eru um það að ekki skuli spilla öræfum, ósnortnum víðernum eins og oft er sagt, með því að hugsa sér leiðina um Stórasand. Þá er auðvitað því að svara að þessi eyðisandur er norðan fjalla í töluverðri fjarlægð frá hinu raunverulega hálendi eða jöklunum, sem hefur þann kost vitanlega að þar eru ekki sviptibyljir eða sviptivindar. Auðvitað getur komið þar sterkur stormur en um sviptivind er ekki ræða. Vegagerð er þar auðveld og engar sérstakar gróðurvinjar eða merkilegar fornleifar á þeirri leið. Sá hluti þessa vegar sem liggur frá Kjalvegi að Réttarvatni hefur því í senn þá tvo miklu kosti að vera auðveldur viðfangs, vera ódýr og svo náttúrlega nauðsynlegur.

Hins vegar liggur fyrir spurningin um það hvort verjandi sé eða rétt sé að leggja veg frá Borgarfirði um Hallmundarhraun að Réttarvatni. Ég hygg að þeir menn sem kunnugir eru þörfum ferðaþjónustu eða þekkja til í Borgarfirði geri sér ljóst að mikill þrýstingur er á að sómasamlegur vegur verði lagður að Surtshelli. Ég hygg einnig að menn geri sér grein fyrir því að þegar þangað er komið er skammt á Arnarvatnsheiði. Veiðivötnin þar eru rík af silungi og miklir möguleikar fyrir þá sem vilja reka ferðaþjónustu að afla sér tekna og búa svo um hnútana að þar verði sælureitur bæði fyrir Íslendinga og erlenda menn sem þar vilja dvelja. Á þessum slóðum er ort hið fallega kvæði Jónasar Hallgrímssonar Efst á Arnarvatnshæðum oft hef eg — ja, nú veit ég ekki hvort segja eigi fáki beitt eða klári beitt. Það er svona upp og ofan hvað mönnum þykir um það og er hægt að vitna um það á marga vegu til Jónasar sjálfs:

þar er allt þakið í vötnum,

þar heitir Réttarvatn eitt.

Og undir Norðurásnum

er ofurlítil tó,

og lækur líður þar niður

um lágan Hvannamó.

Á öngum stað eg uni

eins vel og þessum mér;

ískaldur Eiríksjökull

veit allt sem talað er hér.

Það er á þessum slóðum, á þessum fallegu vinjum sem þar eru sem hægt er að nýta til ferðaþjónustu og útivistar. Við vitum að erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Eins hefur það í vaxandi mæli orðið vinsælt innan lands að hverfa út úr höfuðborginni, úr borgarysnum og borgarrykinu, til þess að eiga góðar stundir í friði með náttúrunni. Hefur verið á það bent af þeim sem best hafa kynnt sér þessi mál að það sé nauðsynlegt að reyna að dreifa sókninni á þá staði sem vinsælir eru. Við vitum að Landmannalaugar liggja undir skemmdum vegna mikils átroðnings. Hið sama getum við jafnvel sagt um Herðubreiðarlindir og ýmsa aðra staði. Það er því nauðsynlegt að dreifa því sem mest hvar ferðamönnum verður boðið að njóta landsins.

Ég hygg að hv. þingmenn viti og skilji að vegur frá Borgarfirði yfir í Miðfjörð liggur þegar fyrir í vegalögum þannig að ég hygg að þann veg sé hægt að leggja án sérstaks umhverfismats. Það liggur því þegar fyrir vilji til þess að leggja veg um Hallmundarhraun niður í Miðfjörð. Ég hygg að menn eigi líka að velta því fyrir sér sem vilja hugsa um þá stöðu sem Borgfirðingar eru í að eins og haldið hefur verið á málum þá er varla hægt að komast nema á allra stærstu torfærubílum svo vel sé á Arnarvatnshæðir úr Borgarfirði heldur verður að fara úr Miðfirði. Það er af þessum sökum sem bændur úr Borgarfirði hafa sérstaklega rætt við mig nauðsyn þessarar tillögu. Þeir gera sér grein fyrir þeim nýju og miklu möguleikum sem einmitt vegur úr Borgarfirði norður í Skagafjörð mundi hafa fyrir ferðaþjónustu á þessu svæði og fyrir uppbyggingu af margs konar toga.

Hið sama á við um uppsveitir Skagafjarðar. Þeir sem þar búa gera sér grein fyrir því að það er mikilvægt fyrir þá að fá veg beint úr Norðurárdal í Eyjafirði yfir Skagafjörð á Kjalveg norðan við Blöndulón þannig að þarna fara saman hagsmunir Skagfirðinga, uppsveitunga í Skagafirði og Borgfirðinga.

Ég hef orðið var við það að ýmsir af þingmönnum Vesturlands gera sér þetta ekki ljóst og vilja einungis horfa á hagsmuni annarra byggðarlaga í sínu kjördæmi þegar kemur að því að ræða þennan veg og er það miður, bæði vegna þess að alþingismenn eiga að hafa yfirsýn yfir sitt kjördæmi og líka af hinu að alþingismenn eiga ekki að hugsa vegagerð út frá þeim forsendum hvort það komi vel eða illa við einhverja hjá sér, heldur hvort vegurinn í heild gagnist þeim sem um hann fara og gagnist landsmönnum, spari kostnað og dragi úr mengun. Það er einmitt það sem þessi vegur gerir. Með því að stytta leiðina frá Reykjavík til Akureyrar um 40 kílómetra drögum við úr kostnaði og drögum auðvitað stórkostlega úr mengun með því að draga úr útblæstri frá bílum. Þetta vita menn.

Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi að orðið er mjög brýnt að ljúka því að leggja veginn yfir Sprengisand með bundnu slitlagi og færi mjög vel saman að tengja þessar tvær framkvæmdir saman, veg um Stórasand og veg yfir Sprengisand. Sunnlendingar leggja á það ríka áherslu að hægt sé að tengja ferðamannaslóðir þar við Mývatnssveit og með sama hætti leggja þeir sem hafa atvinnu af ferðaþjónustu nyrðra áherslu á að hægt sé að komast fljótt suður yfir fjöllin vegna þess að það getur veðrað með þeim hætti að nauðsynlegt sé að geta komist skjótt suður heiðar eða norður. Þetta þekkja menn sem hafa kynnt sér þessi mál.

Menn hafa rætt um það í þessu sambandi að með því að fara þann hluta leiðar sem hef ég bent á, með því að fara Kaldadal og Mosfellsheiði, sé hægt að stytta leiðina til Akureyrar um 40 km til viðbótar. Nú liggur það fyrir í samgönguáætlun að gert er ráð fyrir því að byggja upp veginn um Kaldadal hvað sem þessari áætlun líður. Eins vitum við að verið er að byggja upp veginn um Uxahryggi þannig að beinlínis er unnið að því og hefur verið ákveðið með fjárframlögum frá Alþingi að beina umferð frá Borgarfirði um Þingvelli til Reykjavíkur og suður á land. Þegar menn tala á móti leiðinni yfir Stórasand skulu menn ekki blanda því heim og saman við að með því sé verið að ræða sérstaklega að fara um Þingvelli því að það er ekki rétt. Það er þegar ákveðið að verulegur straumur muni liggja þessa leið inn í Borgarfjörð um Þingvelli. Því er það óhjákvæmilegt, hvað sem þessari tillögu líður, að leggja veg sunnan Gjábakka, sunnan Almannagjár og með fjöllunum utan þjóðgarðsins eins og hægt er til þess að beina umferðinni frá þjóðgarðinum sjálfum.

Með sama hætti liggur það fyrir þegar menn ræða um að leggja bundið slitlag yfir Kjöl eftir að ákveðið hefur verið að byggja upp fullkominn veg frá Laugarvatni til Þingvalla, að straumurinn mun liggja í gegnum hjarta þjóðgarðsins, frá Reykjavík um þjóðgarðinn til Laugarvatns norður eða norðan um Laugarvatn og um þjóðgarðinn þveran og endilangan til Reykjavíkur. Öll umferð mun liggja þá leið vegna þess að það er stysta leiðin.

Þessi tillaga mín um það að byggja upp Stórasand og stytta leiðina norður með þeim hætti mun auðvitað bægja miklum hluta umferðarinnar að norðan, hinni daglegu umferð, frá Kili, frá Þingvöllum og þar fram eftir götunum.

Í síðasta lagi liggur það fyrir að óhjákvæmilegt er að byggja upp hraðbraut til Akureyrar með fullum þunga og þvílíkri breidd að ekki sé stórhætta fyrir vegfarendur. Við vitum hvernig vegurinn er nú. Við vitum að vegurinn norður til Akureyrar eru tæpir 400 km og við vitum að af þessum 400 km eru a.m.k. 200 km og kannski enn þá meira sem óhjákvæmilegt er að byggja upp á nýjan leik ef við ætlum að láta þessa vegi svara þeim kröfum sem gera verður til þeirra samgönguæða sem aðalþungaflutningarnir fara um. Þetta er verulegur kostnaður. Með því að beina þessum hluta umferðarinnar á hinn nýja veg um Stórasand mundi að sjálfsögðu sparast stórkostlegt fé.

Ég vil að síðustu, frú forseti, vekja athygli á því að hér er gert ráð fyrir því að leiðin frá Stórasandi í Borgarfjörð verði í einkafjármögnun þannig að ekki komi til þess að greiða þurfi þann vegargerðarkostnað úr ríkissjóði. Hér er því líka um hreina sparnaðartillögu að ræða sem mun valda því að möguleikar verða á að ráðast í aðrar brýnar vegaframkvæmdir með peningum frá fjárlögum í stað þess að moka peningum í hringveginn úr Skagafirði til Reykjavíkur.

Ég legg til, frú forseti, að málinu verði vísað til síðari umræðu og samgöngunefndar.