132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:18]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hnaut um það að í lok greinargerðar með þessari þingsályktunartillögu, sem hv. þm. Halldór Blöndal mælti hér fyrir, er sagt svo, með leyfi forseta:

„Loks er þess að geta, að þess er víða krafist nú, að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður. Fyrirséð er, að áætlunarflug milli Akureyrar og Reykjavíkur leggst niður um leið eða því sem næst.“

Mig fýsir því að vita, virðulegur forseti: Hver er skoðun hv. þm. Halldórs Blöndals á því að Reykjavíkurflugvöllur verði hreinlega lagður niður? Eru flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu, ég tek eftir því að fjórir þeirra af sjö eru af landsbyggðinni, einfaldlega að búa í haginn fyrir það að Reykjavíkurflugvöllur verði færður úr Vatnsmýrinni? Hafa þessir þingmenn hugsanlega haft einhverja skoðun á því hvort flugvöllurinn verði færður úr Vatnsmýrinni? Hafa þeir jafnvel verið á móti því að flugvöllurinn verði færður úr Vatnsmýrinni og eru þeir þá með þessari þingsályktunartillögu í raun og veru að lýsa yfir uppgjöf í því máli og búa landsmenn undir það að innanlandsflugið leggist nánast af eða a.m.k. hin mikilvæga áætlunarflugleið sem við höfum haft á milli Akureyrar og Reykjavíkur?