132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:20]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þakklátur hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir að vekja athygli á þessum punkti. Ég hafði ekki tíma í ræðu minni til að víkja sérstaklega að málefnum Reykjavíkurflugvallar en það er rétt að við Akureyringar og þingmenn Norðausturkjördæmis, og allir íbúar á því svæði, höfum þungar áhyggjur af þeim umræðum sem uppi eru um það að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Það er ekki ástæða til að gera lítið úr því, það er beinlínis stefna þeirra sem nú fara með völd í Reykjavík að leggja flugvöllinn niður. (Gripið fram í.) Við munum eftir þeirri sýndaratkvæðagreiðslu og skoðanakönnun sem um það fór fram og er skaði að fyrrverandi borgarstjóri skuli ekki vera hér í salnum til þess að gera grein fyrir því hvernig hún stóð að þeim málum, sem var nú satt að segja ekki með hreinlyndum hætti.

En eins og unnið hefur verið að þeim málum liggur það fyrir að það eru ýmsir hér í Reykjavík sem leggja á það ríka áherslu að flugvöllurinn verði lagður niður og fá dollaraglampa í augun eins og Jóakim von Önd þegar þeir tala um verðmæti þeirrar lóðar sem flugvöllurinn stendur á. Þess vegna er það rétt að ef til þess kemur að Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður þá mun innanlandsflug til Akureyrar í grófum dráttum falla niður. Það er það langt til Austurlands að ég geri ráð fyrir að flug þangað muni að einhverju leyti halda áfram. En auðvitað verður að svara slíkri breytingu með því að leggja höfuðáherslu á að stytta leiðir.