132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:26]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki nýtt að menn hafi áhuga á vegagerð hér í sölum Alþingis og ekkert nema gott um það að segja að menn hugsi stórt í þeim málum. Kannski verður vegurinn sem hér er lagt til að verði undirbúinn að veruleika í framtíðinni. Þegar menn hafa komist að niðurstöðu um framkvæmdir, vegagerð eða hvað sem það nú er, vaknar alltaf spurningin um forgangsröðun.

Að mínu mati getur þessi vegagerð ekki verið mjög framarlega í forgangsröðuninni, a.m.k. ekki í bili, og mig langar til að reyna að færa fram einhver rök fyrir því.

Í fyrsta lagi liggja fyrir ýmsar hugmyndir um styttingar á þjóðvegi 1 á þessari leið til Akureyrar sem er nú kannski efst í huga flutningsmanna. Sú stytting, eftir því sem ég kemst næst á teikniborði Vegagerðarinnar, gæti verið allt að 25 km af leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar. Það segir okkur að þessi 40 km stytting, sem hv. þingmaður hefur hér verið að tala um, verður þá ekki nema 15 km og það er ekkert óskaplega mikið. Það er vafamál hvort gjaldtaka á þessari leið mundi standa undir sér ef munur á vegalengdum væri ekki meiri en kannski 20 km eða hvað sem það nú yrði. Ef munur á vegalengdum verður innan við 20 til 30 km hljóta menn að velta því mjög fyrir sér hvort það geti staðið undir sér að innheimta veggjöld og hversu lengi menn yrðu þá að greiða niður framkvæmd eins og þessa.

En auðvitað er þetta ekki svona, það kom skýrt fram hjá þeim sem undirbjuggu málið og kynntu það að þeir binda einfaldlega vonir við að leiðin verði stytt meira, þ.e. að það verði farið um Þingvallasvæðið til Reykjavíkur og að þannig styttist leiðin þá frá núverandi vegi um u.þ.b. 80 km. Ef maður dregur svo 25 km frá þeirri styttingu þá gæti hugsanlega verið raunhæft að gera ráð fyrir því að menn gætu innheimt vegskatta á þessari leið. Það þyrfti að haldast í hendur við vegagerð sem tengdi alla leiðina og gerði ráð fyrir því að beina straumnum þessa stystu leið. Ég vil því að menn tali nú a.m.k. um þetta í raunhæfum aðgerðum og þær eru einfaldlega ekki fyrir hendi nema menn klári þá alla þessa leið og stytti hana verulega.

Síðan á eftir að velta því fyrir sér hvort menn vilji breyta umferðinni um landið með þeim hætti sem þarna er lagt til. Ég held alla vega að það sé hægt að segja að vegur um Stórasand með 40 km styttingu, án þess að taka afstöðu til þess hvernig síðan eigi að beina umferðinni um Þingvallasvæðið til Reykjavíkur, sé ekki skynsamleg ákvörðun núna. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, og ég held að flestir séu það nú, að það þurfi að klára veginn um Kjöl og gefa fólki þannig tækifæri til þess að fara þar góðan veg þvert yfir landið. Sá vegur er fyrir hendi og það þarf að koma honum í gagnið. Hann mundi gefa mörgum af þeim sem vilja fara milli landshluta svipuð tækifæri og hv. þingmaður er að leggja til að komi með umræddum vegi um Stórasand.

Ég tel að það hafi verið svolítill tvískinnungur í ræðu hv. þingmanns þegar hann var að tala um umferðina um Þingvallasvæðið og lét liggja að því að menn vildu beina umferð þar um og að mér fannst talaði hann með neikvæðum hætti um það. En hans tillaga er einfaldlega þannig að til þess að hún gangi upp þurfa menn að fara um Þingvallasvæðið, annars gengur þetta ekki, annars er styttingin ekki nógu mikil til þess að laða umferðina að.

Svo er ég reyndar á þeirri skoðun að stytting á þjóðvegi 1 á leiðinni til Akureyrar mundi auðvitað gera miklu meira gagn á næstu árum en umræddur vegur yfir Stórasand vegna þess að hann mundi kalla á gríðarlegar framkvæmdir til viðbótar sem ég er ekki búinn að sjá að menn séu tilbúnir að láta fara fram. Þeir sem hafa talað fyrir veginum um Stórasand hafa eingöngu talað um að fjármagna þann hluta vegarins sem hér er talað um en ekki styttinguna um Þingvallasvæðið til Reykjavíkur. Það á þá eftir að koma því í framkvæmd til þess að þessar fyrirætlanir geti orðið að veruleika.

Mig langar aðeins til þess að nefna hér margumtalaðan flugvöll í Reykjavík, ekki til þess að fara að ræða það mál í þaula heldur vegna þess að mér finnst að umræðan um hann sé ótrúlega mikil miðað við það að ekki stendur til að þessi völlur fari í burtu á næstu árum. Það eru að verða hér miklar breytingar í vegamálum í landinu, það er verið að tengja saman Reykjavík og Keflavík með góðum vegi og það eru að verða aðrar breytingar í vegamálum líka. Við höfum séð alveg gríðarlega þróun hvað varðar flugið á undanförnum árum, flugið hefur bókstaflega verið að hrapa niður. Ætli það væri nú ekki rétt að menn hinkruðu svolítið við því að það stendur ekki til þess að rúlla flugvellinum upp og fara með hann á næstu dögum. Ætli það væri nú ekki rétt að leyfa sér að skyggnast svolítið inn í framtíðina betur hvað varðar þróun flugs á Íslandi áður en menn gleyma sér gjörsamlega í átökum um það hvert flugvöllurinn eigi nú að fara, eins og hefur verið núna undanfarið. Mér finnst sú umræða ekki tímabær með þeim hætti sem hún hefur verið að undanförnu.