132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:38]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í samþykktri samgönguáætlun Alþingis er gert ráð fyrir að byggja fullkominn veg eftir stöðlum Evrópusambandsins frá Þingvöllum að Húsafelli. Það er í samgönguáætlun þannig að þetta er ekkert sem ég er að finna upp og er rétt að lesa samgönguáætlun áður en menn fara að tala um hana.

Um hitt vil ég segja að hv. þingmaður sagði að eftir því sem hann best vissi væru uppi hugmyndir um að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um 25 km. Nú veit ég ekki hvað hann hefur í huga en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef liggur fyrir að hægt er að stytta hringveginn milli Reykjavíkur og Akureyrar um 12 km með því að fara sunnan Blönduóss. Það er kannski það sem hann er að leggja til, að færa hringveginn yfir á Svínvetningabraut þannig að Blönduós verði ekki lengur á hringveginum. Það er það sem hv. þingmaður er að mæla fyrir sérstaklega. Það er ágætt að fá það fram. Þá veit maður að hv. þingmaður vill ekki að hringvegurinn sé á þeim slóðum. En ef Sundabrautin er inni í þeim 25 km sem hv. þingmaður er að tala um þá vill nú svo til að sá hluti styttingarinnar kemur líka til góða ef farið er um Borgarfjörð og Stórasand, svo það er ekki hægt að bera hlutina þannig saman. Þá er styttingin um Stórasand eftir því ekki 40 km heldur 55, kannski 53–55 km miðað við hringveginn. Því er rétt að fara rétt með tölur. Það er auðvitað alltaf hægt að leika sér að þeim og snúa upp nýjum og nýjum hliðum ef menn eru á móti máli en það er best að tala skýrt. Á leiðinni frá Hvalfjarðargöngum til Akureyrar er engin stytting sem hægt er að tala um nema fara fram hjá Blönduósi. Þá erum við að tala um 12 km, kannski 13. Málið liggur þannig fyrir en ef farinn yrði Stórisandur erum við að tala um 40–42 km.