132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:50]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti fróðlegt að hlusta á veðurlýsingar hv. 5. þm. Reykv. n., Helga Hjörvar, af Stórasandi. Ég geri ráð fyrir því að honum sé kunnugt um að það hafa farið fram athuganir á veðráttu á tveimur stöðum á þessari leið. Ég geri ráð fyrir því að hann hafi kynnt sér niðurstöður af þeim athugunum vegna þess að hann ræddi svo kunnuglega um veðurfarið á þeim slóðum.

Nú er það svo eftir þeim upplýsingum sem ég hef — ég vil þó taka fram, frú forseti, að ekki liggur fyrir nákvæm úrvinnsla á þeim gögnum — virðist liggja fyrir að í sumum tilvikum sé veður á Stórasandi ekki verra en á Holtavörðuheiði eða Öxnadalsheiði, jafnvel betra og stundum er það svipað. Fyrir kemur einnig að það er verra þannig að þetta er svona upp og ofan. En samkvæmt, við skulum segja þeirri ófullkomnu vitneskju sem nú liggur fyrir er ekki ástæða til að gera mikið úr þessu.

En ég vil líka að þingheimur viti að ég beitti mér sérstaklega fyrir því að slíkar veðurathuganir yrðu gerðar á Stórasandi. Það er nauðsynlegt að vegagerðarmenn átti sig á því hvort þar sé byljasamt eða ekki og um hvaða svæði er að fara. Ég ræddi þetta mál einnig við fyrrverandi veðurstofustjóra og hann var þeirrar skoðunar að þessi vegur lægi það langt frá fjöllum og jöklum að ekki væri við því að búast að þar yrði byljótt. Þetta tók ég mjög nákvæmlega fram í framsöguræðu minni. En í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er einmitt lögð áhersla á að nauðsynlegt sé að framkvæma verulegar rannsóknir og mælingar áður en ráðist yrði í nokkrar framkvæmdir á þessari leið.