132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:53]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þær upplýsingar sem hann veitti um hinar takmörkuðu mælingar og ófullnægjandi upplýsingar, sem hann sjálfur lýsti með þeim orðum, og þær getgátur um þær veðuraðstæður sem hann setti fram.

Ég held að í máli þingmannsins komi ákaflega glögglega fram að því miður, ég veit þó ekki hvort það orðalag á sérlega við, sé sannarlega langt í frá að veðurfar á þessum slóðum sé nægilega þekkt til að hafa uppi yfir höfuð nokkurn tillöguflutning um veglagningu af þessu tagi, hvað þá að ráðast í mikinn kostnað við undirbúning slíkra framkvæmda. Málið er þegar af þeirri ástæðu fullkomlega ófullnægjandi og ófullburða en auðvitað eru fjölmargar aðrar ástæður ríkulegar til að hafna þessum hugmyndum og snúa sér kannski fremur af því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi, að ljúka almennilegri vegagerð um Kjalveg.