132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[16:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða snýst að meginhluta til um forgangsröðun og sýn á samgöngur í landinu. Ég ætla hv. þm. Halldóri Blöndal ekki það að hann sé á móti jarðgöngum á Austurlandi eða jarðgöngum gegnum Vaðlaheiði eða jarðgöngum á Vestfjörðum þó að þau séu ekki nefnd í þessari tillögu. Eða að hv. þingmaður sé á móti jarðgöngum á Vestfjörðum og telji mikilvægara að fara í vegalagningu yfir Stórasand ef menn fara út í svona umræðu.

Málið snýst um að fjármagn til vegamála er af skornum skammti. Vegafé er skorið niður, vegáætlun er skorin niður til að þjóna öðrum markmiðum ríkisstjórnarinnar. Brýnum vegaframkvæmdum í byggð á Vestfjörðum, á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi er frestað og þær skornar niður. Þá er það að mínu viti, herra forseti, fullkomlega óábyrgt að koma með svona tillögu inn í umræðuna, eins og hv. þm. Halldór Blöndal gerir, um veg yfir Stórasand og ætla að fara að draga athyglina að henni sérstaklega í ljósi þess hversu er fráleitt það er að ætla að leggja veg yfir Stórasand eins og tillögumaður hefur gert grein fyrir hér í þessari tillögu.