132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[16:13]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið gagnleg og vaknað hafa mörg tilefni til að draga fram einstök atriði hennar. Hægt er að ljúka athugasemdum við ræðu eins hv. þingmanns með örfáum orðum. Það var innlegg hv. 5. þm. Reykv. n., Helga Hjörvars, sem mér skilst að nú sé orðinn talsmaður Samfylkingarinnar í efnahagsmálum. Það verður að segjast eins og er að hv. þingmaður hafði ekki sett sig inn í málin og er það kannski ekki í fyrsta skipti sem hann talar um samgöngumál dreifbýlisins af nokkurri vanþekkingu og er ekkert við því að segja. Ef menn vilja tala um samgöngumál dreifbýlis af vanþekkingu þá getur enginn við því gert, herra forseti, og hver þingmaður verður að sníða sér stakk eftir vexti.

Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að ummælum hv. 2. þm. Norðvest., Jóhanns Ársælssonar. Ég áttaði mig ekki á því undir ræðu hans hvað hann var að fara þegar hann ræddi um að hægt væri að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um 25 km með öðrum hætti en þeim sem ég hef lagt til og rifjaði upp það sem ég veit um það mál. Nokkuð skýrðist það raunar síðar í andsvari hans. Það er rétt að uppi hafa verið ákveðnar hugmyndir um að færa veginn á Holtavörðuheiði niður í Miðfjörð og ná þannig styttingu um nokkra kílómetra, en ég hygg að menn hafi horfið frá því og það sé ekki talinn skynsamlegur kostur. En ef ég fer rangt með það og upp eru komnar nýjar upplýsingar um að hægt sé að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur verulega með því að færa veginn í Holtavörðuheiði niður í Miðfjörð þá hef ég síður en svo á móti því að það sé athugað nánar.

Það liggur einnig fyrir eins og ég sagði að hægt er að stytta leiðina með því að fara hjá Strjúgi eða einhvers staðar á þeim stöðum yfir Blöndu, kannski 12, kannski 15 km með því að sneiða fram hjá Blönduósi. Ef til vill er hægt að stytta leiðina um 2 km eða svo með því að leggja tilmilljarð eða svo í Skagafirði, sem engum dettur í hug, og er hægt að tína svona til. Að öðru leyti eru engar styttingar mögulegar á þessari leið. Og þegar hv. þingmaður ræddi um að hugur hans stæði til þess að vegurinn milli Akureyrar og Reykjavíkur ætti að liggja um sem flesta fjölbýlisstaði á Norðurlandi vestra með jarðgöngum í gegnum Tröllaskaga þá var ég ekki lengur með ef fyrir hv. þingmanni vakti að stytta leiðina milli Akureyri og Reykjavíkur. Auðvitað yrði slíkt til að lengja leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur og ekki fara menn í jarðgangagerð til að lengja leiðina. Ég held að það sé einhver misskilningur hjá hv. þingmanni ef hann hyggur að hann geti fengið fylgi við slíkar hugmyndir. Það er auðvitað ekki til í dæminu.

Það sem þetta mál snýst um er hvort við teljum æskilegt að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur eða ekki. Við getum aðeins fært okkur lengra austur á bóginn. Það liggur alveg ljóst fyrir að hægt er að stytta leiðina frá Austurlandi til Reykjavíkur með því að fara Sprengisand, mismikið eftir því hvort maður hugsar sér að fara hringveginn eins og hann er nú, hvort maður hugsar sér að fara sunnan Möðrudalsfjalla og stefna á Garð í Mývatnssveit eða fara jafnvel enn sunnar og þá er hægt að ná fram verulegri styttingu fram yfir það sem nú er.

Ég er þeirrar skoðunar eða þeirrar trúar er réttara að segja því auðvitað veit ég það ekki, það hafa ekki farið fram rannsóknir á því vegstæði, að veður geti verið válynd á Sprengisandi, þar geti verið miklir sviptivindar, veðurhæðin gífurleg í sviptivindunum þannig að slíkt sé varasamt. En eftir sem áður eru uppi miklar kröfur um að þetta verði athugað. Í því sambandi er rætt um að koma niður í Mývatnssveit austan við Sellandafjall og ekki er tími hér til að rekja það nánar.

Ljóst er að þessar umræður munu halda áfram og Austfirðingar munu sækja á um það að stytta leiðina til Reykjavíkur. Það er auðvitað líka hægt að stytta leiðina með Vaðlaheiðargöngum sem þýðir kannski 15–20 km. Þessi tillaga lýtur að því hvort hægt sé að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Málið snýr ekki eingöngu að hagsmunum Akureyringa heldur erum við líka að tala um hvar framtíðarviðskipti Akureyringa verða og hvort þeir munu í vaxandi mæli snúa sér til Austurlands og hugsa sér að Reyðarfjörður verði útskipunarhöfn Norðurlands. Ef það á að vera svo til frambúðar að vegurinn milli Akureyrar og Reykjavíkur verði 400 km þá er það deginum ljósara að Akureyringar munu sækja á að þjónusta sig á Austurlandi þegar Evrópusiglingar þaðan eru orðnar öruggar og tíðar eftir að álverið hefur risið. Við vitum þegar að stytting um 15 km er möguleg með göngum í gegnum Vaðlaheiði og síðan er hægt að stytta leiðina meir ef við hugsum okkur nýja veglínu frá Mývatnssveit austur í Jökuldal. Jökulsárbrúin er hvort eð er orðin gömul. Hún hefur ekki fullan burð og þarf að endurnýjast og má vera að vegarstæðið allt komi þá til endurskoðunar.

Þegar t.d. borgarfulltrúi Reykjavíkur eins og Helgi Hjörvar talar í hálfkæringi um þessa tillögu þá er hann beinlínis að tala á móti hagsmunum Hafnasambands Akraness og Reykjavíkur því að auðvitað eru það hagsmunir þess hafnasambands að leiðin til Akureyrar sé sem styst og öruggust til að viðskiptin sæki ekki austur á land. En það virðist sem þeir vinstri menn sem hér taka til máls séu eins og dráttarhestur með skyggni fyrir bæði augu til að hann hafi ekki víðsýni. Þeir sjá ekki nema eina braut og það er sú braut sem þeir vilja fara og skilja ekki að aðrir vilji kannski stytta sér leið eða fara öðruvísi að.

Nú liggur fyrir samkvæmt samgönguáætlun Alþingis að leggja á bundið slitlag yfir Kjalveg. Í þessari tillögu er heldur ekki verið að tala um það að öðru leyti en því að um leið og ákvörðun er tekin um bundið slitlag og vegur samkvæmt kröfum Evrópusambandsins kemur um Kjalveg þá hlýtur hann að sveigja niður í Skagafjörð sunnan Blöndulóns.

Það er alger misskilningur þótt svo hafi virst um hríð að stefna í vegamálum hér á landi takmarkist við Norðvesturkjördæmi. Það er ekki svo. Það eru fleiri byggðarlög á landinu og það verður að horfa til þeirra. Þess vegna er það að Kjalvegur mun sveigja niður í Skagafjörð. Það er mjög undarlegt ef þingmenn Skagfirðinga leggjast gegn því sjálfsagða hagsmunamáli Skagfirðinga og einsdæmi í vegagerð ef þingmenn Borgfirðinga og Skagfirðinga leggjast gegn hagsmunum íbúa í sínu eigin kjördæmi. Er reynsla fyrir því að þingmenn sem haga sér þannig, skilji ekki hverjum klukkan glymur hverju sinni, skilji ekki þarfir kjósenda sinna, vilji ekki hlýða kalli umbjóðenda sinna, slíkir þingmenn halda ekki fylgi lengi. Þess vegna er það að þegar vegurinn er kominn frá Kili þvert yfir Skagafjörð yfir í Norðurárdal þá er ekki nema góður spölur þaðan yfir í Borgarfjörð. Hér er ekki verið að tala um að sá vegur verði kostaður af opinberu fé heldur að um þann veg verði stofnað félag og vegurinn verði fjármagnaður með sama hætti og göngin undir Hvalfjörð.

Mér þykir það líka svolítið merkilegt að margir þeir menn sem sátu á þingi með mér þegar ég var að berjast fyrir Hvalfjarðargöngum, og átti ýmsa andstæðinga í þessum þingsal, og hvöttu mig mjög í því máli skuli ekki skilja að það geti verið nauðsynlegt að ráðast víðar í vegaframkvæmdir en undir Hvalfjörð með einkafjármögnun, og skuli ekki standa á bak við önnur kjördæmi þegar þau eru að stytta leiðina til sín. Því þegar ég tala um það að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur með því að fara Stórasand þá er ég að tala um að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um hér um bil nákvæmlega sömu vegalengd eins og fyrir Borgnesinga þegar þeir aka til Reykjavíkur og spara sér að fara fyrir Hvalfjörð. Þá skildu þingmenn Vesturlands það, menn frá Stykkishólmi, Borgarnesi, Arnarstapa og Reykholti skildu þá nauðsynina að stytta um 40 km. Því skyldi maður ætla að slíkir þingmenn skildu líka þegar menn úr öðrum kjördæmum tala um nauðsynina á því að stytta um 40 km.

Þingvellir hafa eðlilega blandast nokkuð inn í þessar umræður en ég er þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að setja þá reglu að þungaumferð fari ekki um þjóðgarðinn á Þingvöllum svo það sé alveg ljóst. Á hinn bóginn er margvísleg umferð önnur að sumri til og óhjákvæmilegt að leyfa áætlunarbílum og hópferðabílum að aka um þjóðgarðinn Þingvelli eins og um aðra þjóðgarða og auðvitað einkaaðilum. Mjög mikil umferð og nánast örtröð verður því um Þingvelli ef svo fer að bundið slitlag verði lagt um Kjöl. Þeirri umferð er hægt að bægja að verulegu leyti frá þessum helgistað okkar Íslendinga, heilaga stað, með vegi um Stórasand. Það er kjarni þessa máls og því er það lagt hér til.

Að síðustu vil ég vekja athygli á, herra forseti, að ekki er gert ráð fyrir að ráðast í þessa vegaframkvæmd alveg á næstu árum. Ég geri ráð fyrir að taka muni í það minnsta fimm ár að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum rannsóknum og mælingum á þessari leið til að hægt sé að hanna veg um svæðið. Kannski þarf lengri tíma til að vinna umhverfismat, um það skal ég ekki segja og um það veit ég ekki. Við erum að tala um vegagerð sem e.t.v. verður ráðist í á öðrum áratug 20. aldar. Við erum með öðrum orðum að horfa langt fram og reyna að gera okkur grein fyrir hvaða möguleika við höfum til að stytta leiðir og auka arðsemi og hagkvæmni í samgöngukerfi landsins.

Ég vil bæta þessu við: Auðvitað kemur fullkominn vegur í Surtshelli. Auðvitað veit hv. þm. Jóhann Ársælsson og hver sem er, hv. þm. Helgi Hjörvar eða hver sem er, að óhjákvæmilegt er að góður vegur komi að Surtshelli. Auðvitað vita þessir þingmenn og allur þingheimur að um leið og almennilegur vegur er kominn í Surtshelli verður ekki staldrað þar við heldur haldið áfram eftir þeim vegi sem lög segja til um niður í Miðfjörð og þá er bara eftir þessi spotti, Stórisandur. Og þá spyr ég: Hvers konar meinbægni er það ef þingmenn úr öðrum kjördæmum vilja sjálfir njóta hagræðingarinnar af því að stytta vegalengdir en um leið og kemur yfir einhver kjördæmamörk þá mega þeir sem austan þeirra búa ekki njóta hagræðisins af styttingu vegalengda og betra samgöngukerfi? Við hljótum að hugsa til alls landsins ef við viljum rísa undir því nafni að vera alþingismenn á Íslandi.