132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[16:30]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það lengri leið að aka um Sauðárkrók til Reykjavíkur en að sleppa Sauðárkróki og þarf ekki langa útreikninga til að sjá það. Ég vil að það sé alveg ljóst.

Þegar við erum að tala um hörðustu vetrarmánuðina verðum við líka að hafa í huga að hinir hörðu vetrarmánuðir eru mjög mismunandi frá ári til árs. Ég hygg t.d. að þessi tvö síðustu ár sem veðurathuganir hafa verið gerðar á Stórasandi munu leiða það í ljós að vegurinn yrði fær allt árið um kring að heita má, a.m.k. hafa ekki orðið nein válynd veður á þessum árum nema kannski brot úr degi eða dag og dag. En slíkar aftökur geta líka gerst þótt reynt sé að fara um byggð. Við sáum hvað gerðist á Fjarðarhálsi nú um daginn. Þar brast á mikil stórhríð, fárviðri eins og við vitum og er ekki einsdæmi. Ég man eftir öðru slíku og heldur verra en nú var, sennilega 1995, þannig að ef sá gállinn er á honum þá geta auðvitað orðið miklar aftökur og ég geri ráð fyrir því að veðurhæðin sé mun meiri og sviptivindar meiri í nágrenni Reykjavíkur en á Stórasandi án þess að ég geti fullyrt það.