132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[16:32]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi það áðan, ég hafði ekki tíma til að nefna það, að Akureyringar mundu kannski sækjast eftir því að koma sínum flutningum til hafna á Austfjörðum í stað Reykjavíkur. Ég held að það sé svo sem ekki endilega af því slæma en ég hef bundið vonir við að Akureyringar fengju meiri siglingar til sín en nú er og satt að segja átta ég mig ekki alveg á því hvers vegna þeir sem flytja vörur til landsins, versla með þær og flytja út um landið hafi ekki möguleika á því að hafa vöruhótel á Akureyri og dreifa vörum líka þaðan sem mundi auðvitað spara mikla vöruflutninga á landi. Ég tel að vert væri rannsaka hvort ekki sé hægt að breyta því munstri sem er í gangi hvað varðar flutninga á sjó til landsins þannig að stærstur hluti þeirra vara sem koma til landsins og eiga að fara á t.d. Norðurland og Norðausturland gætu komið að landi annaðhvort á Austfjarðahöfnum eða Akureyri og væri dreift þaðan. Ég held að þessir hlutir gætu hugsanlega breyst til betri áttar en nú er.

Ég vil að það komi skýrt fram að ég er ekki á móti því að hægt sé að fara í einkaframkvæmdir á vegum á Íslandi ef þær eru hagkvæmar og harmónera við þá vegi sem er verið að leggja á vegum hins opinbera. Þau viðbrögð sem hafa orðið við þessu máli urðu að hluta til vegna þess að samkvæmt kynningu á því kom mjög skýrt fram að til þess að þetta gæti orðið að veruleika þyrfti að fara í aðrar framkvæmdir sem tengdust því. Þetta var kynnt með allt öðrum hætti en hv. þingmaður talar um núna. Það var talað um að fara í þessar framkvæmdir innan þriggja ára og það kom skýrt fram að menn þyrftu á því að halda að klára vegi um Þingvallaleiðina til Reykjavíkur.