132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Ummæli forsætisráðherra um öryggis- og varnarmál.

[15:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það er alveg ljóst af hálfu ríkisstjórnarinnar að við teljum að hér verði að vera sýnilegar varnir. Það er líka alveg ljóst af hálfu ríkisstjórnarinnar að við teljum að það eigi að byggja á varnarsamningnum við Bandaríkin og við þurfum að ná samningum á þessum grundvelli við Bandaríkjastjórn. Þetta hefur tekið langan tíma og næsta vor verða liðin fimm ár síðan sá samningur sem síðast var gerður rann út.

Á öllum fundum í okkar flokkum eru öll mál rædd og eins var á þessum. Ég taldi ástæðu til þess að ræða þetta mál, enda hvílir það þungt á mörgum. Öryggis- og varnarmál þjóðarinnar skipta máli. Það er skoðun okkar í ríkisstjórninni að hér þurfi að vera sýnilegar varnir og það ítrekaði ég á þessum fundi og ég lýsti líka yfir óánægju með það hversu hægt þetta gengi. Ég tel að þeir aðilar í Bandaríkjunum sem telja ekki nauðsynlegt að hafa þær varnir sem hér eru núna hafi verið alláhrifamiklir í þessu máli. Það er engin launung á því að það eru skiptar skoðanir um þessi mál af hálfu bandarískra stjórnvalda.

Ég teldi mjög mikilvægt, frú forseti, að hér kæmi fram við þessa umræðu hver skoðun Samfylkingarinnar í þessu máli væri. Eftir því sem samstaðan er víðtækari um þetta mál þeim mun betra. Ég vænti þess að Samfylkingin geti lýst því hér yfir að skoðun hennar sé sú að það eigi að byggja áfram á varnarsamningnum við Bandaríkin og að hér þurfi að vera sýnilegar varnir. Ég teldi það mjög mikilvægt að af hálfu formanns Samfylkingarinnar kæmi það fram við þessa umræðu.