132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Ummæli forsætisráðherra um öryggis- og varnarmál.

[15:10]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að það er ákaflega skrýtið ferli sem virðist vera í gangi í samningum á milli íslenska ríkisins og Bandaríkjastjórnar um hvernig viðhalda eigi varnarsamningnum og hvernig eigi að taka á þeirri einhliða yfirlýsingu sem kom frá Bandaríkjamönnum í maí 2003 um að þeir vildu fara með herþoturnar burt af Keflavíkurflugvelli og draga þar verulega úr starfsemi.

Það er afskaplega misvísandi, það sem sagt hefur verið í þessari umræðu alveg frá upphafi. Maður hlýtur að velta fyrir sér: Hvað var vitað strax í maí 2003? Hvernig lágu málin þá og hvað hefur verið gert síðan? Höfum við í raun nokkuð náð að þoka þessum málum áfram síðan rétt fyrir kosningar í maí 2003?

Við höfum áður rætt þessi mál á Alþingi. Við höfum rætt þau í tengslum við fund sem þáverandi hæstv. forsætisráðherra átti með Colin Powell. Hann sagði þann 22. nóvember á þingi að niðurstaða þess fundar væri sú að nú hæfust embættismannaviðræður á þeim grundvelli sem þeir hefðu rætt um. Það er stutt síðan sagt var úr þessum ræðustól að engar samningaviðræður væru hafnar. Er furða þó að maður spyrji: Hvað er um að vera? Um hvað er verið að ræða í þessum viðræðum? Í hvert skipti sem spurt er virðast menn ekki geta svarað.

Þetta mál er að sjálfsögðu tvíþætt, náttúrlega varnarþátturinn sem er afar mikilvægur en ekki síður atvinnuhagsmunir fyrir þá sem búa á Suðurnesjum. Sá sem hér stendur hefur oft komið í pontu og viljað ræða þau mál en hæstv. ríkisstjórn hefur lítið viljað ræða atvinnuþáttinn á Suðurnesjum. Óvissan þar er orðin algjörlega óþolandi, sérstaklega þessi misvísandi skilaboð aftur og aftur. Við hljótum að fara að kalla eftir einhverjum raunverulegum svörum við þeim spurningum sem reistar eru.