132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Ummæli forsætisráðherra um öryggis- og varnarmál.

[15:16]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það ber vel í veiði að næstkomandi fimmtudag verður hér umræða um utanríkismál. Vonandi geta bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra verið þá viðstaddir og við rætt þetta mál ítarlegar en hér gefst tími til. Merkileg ummæli hæstv. forsætisráðherra á þá leið að herinn geti þá bara farið ef hann vilji ekki vera hér, sem eru auðvitað stórmerkileg ummæli í sjálfu sér, eru það kannski aðallega af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi hefði hæstv. ráðherra væntanlega ekki þurft að taka þetta fram nema vegna þess að einmitt þetta sem hann er að reyna að þvo af sér og ríkisstjórn sinni hafa menn verið að reyna, þ.e. að reyna að fá herinn til að vera hér þó að hann vilji ekki vera hér. Annars hefði maðurinn ekki þurft að taka þetta fram. Liggur það ekki í augum uppi?

Hið síðara bendir auðvitað til mikillar gremju, ef ekki uppgjafar, af hálfu ríkisstjórnarinnar og það er athyglisvert ef svo er komið að hæstv. forsætisráðherra metur stöðuna meira og minna tapaða frá sínum sjónarhóli eða sínum viðhorfum í málinu.

Hæstv. forsætisráðherra vill gjarnan vita hér hvort hann hafi stuðning flokka til þess að halda í herinn sem á fínu máli heitir að viðhalda hér sýnilegum vörnum. Það eru fjórar gamlar F15 orrustuþotur óvopnaðar — það eru „sýnilegar varnir“ sem er kurteisisorðið yfir að halda hérna í herinn þó að herinn vilji fara. Það skal a.m.k. vera á hreinu að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki stuðning Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til þess. Það er forneskja, það er úrelt og fáránlegt að reyna að ríghalda hér í fullkomlega óþörf og ástæðulaus hernaðarumsvif uppi á Íslandi án nokkurs sýnilegs tilgangs, sem enginn sér neinn tilgang með nema hæstv. ríkisstjórn og þá þeir sem ætla að gjöra svo vel að styðja hana að málum í því að sitja föst í þeirri forneskju að halda úti hernaðarbrölti uppi á Íslandi sem engin ástæða er til og ekkert annað er en sóun á fjármunum.

Það sem á að gera er að snúa sér að því að takast á við þessar breytingar, sérstaklega eins og þær snúa að Suðurnesjum og atvinnulífi þar, og það er ekkert ofverkið Íslendinga að (Forseti hringir.) komast í gegnum afleiðingar þeirra breytinga (Forseti hringir.) að herinn fari úr landi án þess að af því hljótist nein umtalsverð skakkaföll.