132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Skólagjöld við opinbera háskóla.

[15:45]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þessi umræða er mjög þörf en það er enn brýnna að hæstv. menntamálaráðherra temji sér að ræða málin með þeim hætti að það sé hægt að átta sig á því hver meiningin er. Orðaflaumur hæstv. ráðherra einkennist oft af upphrópunum um umræðu um öfluga menntasókn, fjölgun nemenda, víðtækara námsframboð, auknar gæðakröfur, samkeppnishæfi náms, en miklu minna fer fyrir því að hæstv. menntamálaráðherra ræði kjarna mála. (Gripið fram í.)

Ég fór að velta þessum orðaflaumi fyrir mér í síðustu viku en þá heyrði ég umræðu um niðurskurð, mjög sársaukafullan niðurskurð, í háskóla okkar Norðlendinga, Háskólanum á Akureyri. Þá heyrðist á hæstv. menntamálaráðherra að með þessu væri verið að efla skólann, það mátti skilja það á fréttum. En það eru algjör öfugmæli og ég tel að hæstv. menntamálaráðherra eigi að temja sér annan málflutning en slíkan því hún misbýður fólki með bulli, vil ég segja.

En ég hjó eftir því hér í umræðunni að hv. þm. Dagný Jónsdóttir vildi ekki útiloka að Framsóknarflokkurinn tæki undir þá stefnu að koma á skólagjöldum í ríkisreknum menntaskólum. Það stríðir þá gegn stefnu Framsóknarflokksins, en það var að heyra.

Einnig kom enn og aftur á daginn að hæstv. menntamálaráðherra talaði ekki skýrt heldur ræddi hún þann möguleika að það ætti að skoða það að koma á skólagjöldum. Ég tel að hæstv. ráðherra eigi einfaldlega að tala skýrt, það er löngu orðið tímabært að hún svari því hér í umræðunni: Er verið að þvinga það fram, m.a. í Háskólanum á Akureyri, með því að þrengja að skólanum, að skólamenn sjálfir vilji taka upp skólagjöld? Mér finnst sanngjarnt að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn svari því skýrt hver stefna þeirra er í þessum málum. Annað er óþolandi.