132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Skólagjöld við opinbera háskóla.

[15:54]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Frjálslyndi flokkurinn er hlynntur markaðslausnum í rekstri menntastofnana á háskólastigi en aðeins með þeim formerkjum að tryggt sé að sú menntun sem boðið er upp á í einakreknum skólum standist þær kröfur sem almennt eru gerðar til þess skólastigs.

Á liðnum árum hefur háskólum sem eru séreignarstofnanir fjölgað mjög, það eru háskólar sem annars vegar fá fjárframlög með hverjum nemanda frá ríkisvaldinu en innheimta einnig skólagjöld og geta þannig staðið undir betri þjónustu við nemendur.

Hins vegar hefur nemendum við Háskóla Íslands fjölgað gífurlega með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur. Margir telja að þau framlög sem ríkið skammtar skólanum dugi ekki til að þjónusta allan þann fjölda með viðunandi hætti og að í raun komi þessi fjölgun niður á gæðum menntunarinnar. Ég veit svo sem ekki hvað er satt eða logið í þeim efnum en hins vegar vill Frjálslyndi flokkurinn standa vörð um Háskóla Íslands sem ríkisrekinn háskóla og að þar sé jafnræði tryggt til náms. Aðrir geta þá ráðið því hvort þeir borga með sér til séreignarstofnana en við gjöldum varhuga við því að skólagjöld séu innheimt við Háskóla Íslands.

Það liggur ljóst fyrir, virðulegi forseti, að til þess að ríkisskólinn geti séð fyrir jafnræði allra til náms þarf að auka fjárhagsgetu hans og þá með auknum fjárframlögum á fjárlögum. Til viðbótar þessu teljum við í Frjálslynda flokknum að það sé mjög æskilegt að hvetja fyrirtæki til sérstakra fjárframlaga til háskólastigsins með því að gera slík framlög frádráttarbær frá skatti en það er kannski önnur vísa í því samhengi sem til umræðu hefur verið hér og nú.