132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Skólagjöld við opinbera háskóla.

[15:56]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þá prýðilegu umræðu sem hér hefur farið fram. Ég skoraði á hæstv. ráðherra menntamála við upphaf umræðunnar að taka af skarið og tala skýrt um hvað hún vildi fyrir opinberu háskólana í framhaldinu. Annaðhvort koma til aukin framlög hins opinbera eða heimild til hærri skólagjalda. Þessu svaraði ráðherra ekki þrátt fyrir áeggjan og áskorun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um að taka upp skólagjöld.

Samfylkingin lagði til að áður en aukin skólagjöld kæmu til greina yrði að fara fram ítarleg stefnumótun og úttekt á málefnum háskólastigsins þar sem áhrif skólagjalda yrðu vegin og metin. Út frá þessu lagði hv. þm. Einar Már Sigurðarson það til að settur yrði á laggirnar þverpólitískur hópur sem hefði með höndum stefnumótun og stefnumörkun um framtíð háskólastigsins á Íslandi og þessu væri öllu velt upp.

Hér var einnig vitnað til orða formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, og undir þau tek ég. Hún sagði að það væri ankannalegt að innheimt væru há skólagjöld á leikskólum landsins á meðan þau væru mun lægri í opinberu háskólunum. Þess vegna er Samfylkingin að vinna að því í sveitarstjórnum, þar sem hún er við völd, að leikskólinn verði gjaldfrjáls í áföngum.

En þessi umræða verður að eiga sér stað hvort og hvernig við eigum að fjármagna háskólastigið til framtíðar. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra út frá nokkuð afdráttarlausri ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um þátttöku nemenda í rekstri skólanna og þess vegna óskaði ég eftir því að ráðherrann kæmi fram með skýra pólitíska stefnumótun um það hvort opinberu háskólarnir ættu að fá heimild til aukinnar skólagjaldatöku eða verulega aukin framlög frá hinu opinbera þannig að þeir mættu komast út úr þeim fjárhagsvanda sem þeir eru í og birtist nú best í því að Háskólinn á Akureyri leggur niður tvær deilda sinna.