132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Skólagjöld við opinbera háskóla.

[15:58]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Rétt aðeins út af Háskólanum á Akureyri. Þar er ekki um fækkun nemenda að ræða til lengri tíma heldur fjölgun. Þar er aukning fjárframlaga ekki minnkun, og á mannamáli heitir þetta auðvitað ekki niðurskurður. Þetta heitir efling og styrking og til lengri tíma er verið að skipuleggja Háskólann á Akureyri, hans stjórnunarskipulag og innra gæðastarf, þannig að hann geti tekið þátt af fullum krafti í þeirri miklu samkeppni sem er á háskólasviðinu. (Gripið fram í.)

En það verður að segjast eins og er, frú forseti, að þegar maður hlustar á þau ummæli sem hafa fallið hér af hálfu Samfylkingarinnar þá eru þeir að undirstrika það sem má kalla stefnu Samfylkingarinnar. Hún er í besta falli að mínu viti brandari, í versta falli er stefna Samfylkingarinnar einfaldlega dapurleg nýting á heilafrumum, því að það er ekki heil brú í því sem Samfylkingin hefur sett hérna fram.

Við höfum hlustað í dag á umræðu um utanríkisstefnuna. Það er engin stefna þar. Það er ein stefna í dag varðandi skattamálin, allt önnur fyrir kosningar. Það sama má segja um fiskveiðistjórnarmálið. Síðan heyrum við enn og aftur glænýja stefnu varðandi skólagjöldin. Menn vilja ekki einu sinni kannast við eins árs gömul ummæli.

Ef það er metnaður hjá nýrri forustu í Samfylkingunni að bjóða alltaf upp á glænýja stefnu daglega þá verður hún bara að hafa það svona líkt og verslanir bjóða upp á nýjar vörur.

En það er alveg ljóst að stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli er sú að halda áfram að hækka fjárframlög til háskólastigsins, efla háskólastigið sem best má verða (Gripið fram í.) og núna liggur fyrir að ég muni á þessu haustþingi leggja fram frumvarp sem snertir fyrst og fremst gæðamál og innra starf háskólanna með það að markmiði að þeir geti staðist alþjóðlegar kröfur (Gripið fram í.) í þeirri miklu samkeppni sem þeir standa frammi fyrir á næstu árum. (Gripið fram í.)