132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[16:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að gera athugasemd við það að ég sé ekki hæstv. iðnaðarráðherra í salnum og enn fremur að óskað var eftir því við fyrri hluta 1. umr. að hæstv. umhverfisráðherra yrði hér til staðar líka. Ég sé ekki heldur hæstv. umhverfisráðherra. Ég óska því eftir að hæstv. forseta láti kanna með viðveru þessara hæstv. ráðherra.

(Forseti (SP): Forseti vill upplýsa að athugað verður hvort ekki verði hægt að bregðast við þessum óskum hv. þingmanns.)

Ég get svo sem hafið inngang að ræðu minni þó að auðvitað gangi á tímann, sem er miður. Ég hefði gjarnan viljað hafa báða hæstv. ráðherra hér til taks.

Þetta er framhald 1. umr. um málið og tekist hefur verið harkalega á um það eins og fólk veit. Á síðasta þingi endaði málið þannig að það fór ekki í gegn þó svo að iðnaðarnefnd hefði afgreitt það frá sér. Ég held að það sé þá spurning um að taka til við þessa umræðu á nýjan leik á þeim nótum að möguleiki sé á að vinna málið áfram. Ég fullyrði að mikið vantar á að málið sé það vel unnið að hægt sé að hleypa því einu og sér í gegnum eðlilega þingumræðu og þingstörf. Ég er þeirrar skoðunar að með breytingum á vatnalögum frá 1923, þeim breytingum sem liggja fyrir í þessu frumvarpi, sé verið að gera róttækar breytingar, allt annað og meira en formbreytingu eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur ævinlega vikið að í ræðum sínum. Ég er sammála þeim sem hafa haldið því fram að hér sé mál á ferðinni sem sé til þess fallið að vekja vafa um markmið breytinganna. Laganefnd Lögmannafélags Íslands gaf umsögn um frumvarpið á síðasta þingi. Hún fjallaði um orðalag frumvarpsins og sagði að það væri til þess fallið að vekja vafa um markmið breytinganna og að mun skýrara væri að segja afdráttarlaust að einungis sé um formbreytingu að ræða. Ekkert hefur verið gert í þessari nýju útgáfu frumvarpsins til að eyða þeim vafa. Ég kalla eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra svari efnislega þeim athugasemdum sem laganefnd Lögmannafélagsins gerði og Orkustofnun tók reyndar undir í sérstakri viðbótarumsögn síðastliðið vor þar sem hún tók undir sjónarmið Lögmannafélagsins.

Hæstv. forseti. Ef ég á að lýsa þeim framgangsmáta sem ég mundi vilja hafa á þessu málum, því eins og ég hef áður sagt held ég því ekki fram að ekki þurfi að endurskoða vatnalögin frá 1923, þá tel ég mjög mikilvægt að það sé gert á heildstæðan máta. Ekki þann hátt sem hér er lagt til, að hlutirnir séu allir skornir niður í einhverjar öreindir og hér sé skotið í gegn einhverju frumvarpi til vatnalaga, einhverju frumvarpi um rannsóknir og nýtingu jarðefnaauðlinda og síðan einhvern tíma seint og um síðir fáum við kannski að líta vatnsverndarfrumvarp.

Breytingar þær sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur til að gerðar verði í þessum málaflokki eru þess eðlis að frumvarpið sem við ræðum hér ætti að heita frumvarp til laga um vatnsréttindi, það ætti að vera kvitt og klárt frumvarp til laga um vatnsréttindi. Að hluta til er verið að reyna eitthvað slíkt í frumvarpinu en það þýðir að ákveðnir þættir vatnalaganna, sem heyrðu sögunni til ef þetta frumvarp yrði lögfest, yrðu þar með munaðarlausir. Ég er ekki sátt við það að 43. gr. hnýti alla lausa enda í þeim efnum. Mér finnst hún sannarlega ekki gera það. Ég tel því að þetta frumvarp ætti að heita frumvarp til laga um vatnsréttindi eða, eins og Umhverfisstofnun lagði til í sinni viðamiklu umsögn síðastliðið vor: Frumvarp til laga um orkunýtingu vatns. Síðan ættum við að hafa hér á sama tíma stóra frumvarpið um rannsóknir og nýtingu jarðefnaauðlinda því að óneitanlega skarast ákveðnir þættir þessara tveggja mála mjög mikið. Í þriðja lagi ætti að liggja á borðum okkar frumvarp til laga um vatnsvernd. Það ættu kannski að vera hin eiginlegu vatnalög.

Við skulum hafa það alveg á hreinu, frú forseti, að hér er verið að fjalla um það viðamikið mál, og ég held að hæstv. ráðherrar ættu að vita það af móttökunum sem málið fékk síðastliðið vor, að það hefði verið mun skynsamlegra að fara þá leið sem ég nú hef lýst. Þá stæðum við ekki í þeirri glímu sem fyrri hluti 1. umr. gaf til kynna að væri í uppsiglingu, og ljóst er að við eigum eftir að þurfa að takast mjög harkalega á um þessi mál, nema hæstv. ríkisstjórn vitkist í þessum efnum.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði þegar við hófum umræðuna að hér væri einungis verið að gera formbreytingu. Ég ætla að rökstyðja aðeins betur af hverju ég er ósammála henni um það. Það eru ekki bara vegna þeirra raka sem laganefnd Lögmannafélagsins hefur fært í þeim efnum heldur líka með því að lesa gömlu vatnalögin. Og það er kannski gaman að taka það fram, hæstv. forseti, að vatnalögin frá 1923 eru einhver skemmtilegasta löggjöf sem ég hef lesið fyrir það eitt hvað hún er fallega orðuð. Hún er vel skrifuð, er á fallegu máli og hún er mjög tær og lýsandi. Ég sakna því ákveðinna þátta úr þessum hreina og tæra texta frá 1923 og tel að sá texti sem hér er verið að leggja til að komi í staðinn sé afar flatneskjulegur í samanburði við hinn. En þetta er kannski fagurfræðilegur útúrdúr. Það sem ég uppgötvaði þegar ég las núna enn einu sinni gömlu vatnalögin er að það eru grundvallarbreytingar sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur til að hér séu gerðar vegna þess að eins og segir í 4. gr. frumvarpsins fjallar þetta mál fyrst og fremst um eignarrétt því að „fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“ Hér er verið að tala um eignarrétt á vatni. Í gömlu vatnalögunum var alls ekki talað um eignarrétt á vatni á sama hátt og hér er fjallað um, heldur að landareign hverri fylgdi réttur til umráða og hagnýtingar. Hagnýting á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni væri á þann hátt sem lögin heimiluðu. Hagnýtingarrétturinn er í mínum huga ákveðið hugtak sem er gegnsætt og mér lætur það miklu betur. Ég tel að laganefnd Lögmannafélagsins láti slíkt líka betur miðað við umsögn þeirra frá í vor.

Ég vil skýra þetta aðeins nánar. Í mínum huga er það svo að eðli vatns gerir okkur ekki kleift að slá á það eign okkar því að dropinn sem fellur í hafið við Íslandi dúkkar upp í Miðjarðarhafinu innan skamms og svo rignir honum kannski einhvern tíma síðar niður í höfuðin á Afríkubúum sem verða svo heppnir að fá regn eftir þurrkatíma. Eignarréttur á vatni er því öfugmæli, hæstv. forseti. Hins vegar er auðvitað hægt að tala um hagnýtingarrétt og að landeigendur eigi farveginn sem vatnið rennur eftir og eigi rétt til að nýta það vatn sem rennur um hann meðan það rennur um hann. Hagnýtingarréttur á vatni, já, en eignarréttur á vatni, nei. Ég held að hér sé í grundvallaratriðum um hugsanaskekkju að ræða hjá hæstv. iðnaðarráðherra og þeim aðilum sem komið hafa að samningu þessa frumvarps. (Iðnrh.: Hver á þá vatnið?) Hver á þá vatnið, spyr hæstv. iðnaðarráðherra. Það er sameign þjóðarinnar, sameign mannkynsins. Vatnið hlýtur að vera sameign okkar allra. Það er lifandi auðlind sem við höfum rétt til að nýta meðan við höfum það í höndum okkar eða í farveginum hjá okkur eða í ílátunum okkar en við getum aldrei slegið eign okkar á vatnið. Það getum við ekki gert. Þetta er svar mitt til hæstv. iðnaðarráðherra við þessari spurningu.

Eiganda landareignar sem vatnsréttindi fylgja geta hins vegar verið heimil not af því vatni sem um hana rennur og honum getur verið heimilt að framleiða t.d. orku úr því vatni. En vatnið getur hvorki landeigandinn né Orkustofnun né hver svo sem er annar nokkurn tímann átt. Ég held að í grunninn séum við því að fjalla um efnisbreytingu en ekki formbreytingu þó ekki sé nema bara út frá vangaveltum mínum um einkaeignarrétt á vatninu sem ekki er fjallað um í vatnalögunum gömlu heldur eingöngu hagnýtingarrétt.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði við fyrri hluta 1. umr. að með frumvarpi þessu væri lagt til að undir vatnalög heyrði nú vatn í öllum sínum myndum og birtingarformum, samanber skilgreiningu 2. gr. frumvarpsins, því að gildandi vatnalög, hin fallega orðuðu lög frá 1923, tækju fyrst og fremst til kyrrstæðs og rennandi yfirborðsvatns en um grunnvatn og jarðhita væri fjallað í öðrum lögum, lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. Ég er ekki, hæstv. forseti, sátt við þessa útvíkkun í frumvarpi til vatnalaga frá hæstv. iðnaðarráðherra. Ég tel að við förum þar vill vegar, sérstaklega þegar við horfum til þess að við fylgjum ekki úr hlaði verndarfrumvarpi á sama tíma. Mér finnst líka orka mjög tvímælis að grunnvatnið eigi að heyra undir þetta frumvarp eins og gert er ráð fyrir hér. Það er að hluta til út af því að ég tel að við getum ekki slegið eign okkar á grunnvatnið á þeim nótum sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Ég tel að hér sé um efnisbreytingar að ræða, mjög umfangsmiklar og róttækar, og ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra skuldi okkur að fjalla nánar um eða svara betur spurningunni um efa laganefndar Lögmannafélagsins. Á hvern hátt rökstyður hæstv. iðnaðarráðherra það að eingöngu sé um formbreytingu að ræða þegar hér er búið að tína til ótal rök um að svo sé ekki?

Ég geri líka athugasemd, hæstv. forseti, við að 1. gr. í frumvarpstextanum, markmiðsgreinin, hljóði á þann hátt sem hún gerir og tel að a.m.k. þurfi haldbærar skýringar frá hæstv. iðnaðarráðherra um hvað þetta kostar. Satt að segja væri mjög gagnlegt að fá sömuleiðis skilning hæstv. umhverfisráðherra á því máli. Markmiðið samkvæmt greininni á að vera skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvers er að vænta af stjórnvöldum sem telja jafnvel Kárahnjúkavirkjun til sjálfbærra vatnsaflsvirkjana? Við getum verið minnug þess að bara í fréttum í morgun kom í ljós að ein af stærstu náttúruverndarsamtökum veraldar setja Kárahnjúkavirkjun á listann yfir svörtu virkjanirnar sem hafist var handa við að framkvæmda eftir að niðurstöður alþjóðanefndar um stíflur og vatnsaflsvirkjanir lágu fyrir um aldamótin, árið 2000. Þá er Kárahnjúkavirkjun á svörtum lista hjá umhverfisverndarsamtökum vegna þess að hún sé svo langt frá því að vera sjálfbær eða lúta lögmálum sjálfbærrar þróunar.

Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að stjórnvöld þurfi að skýra hvað þau meina með þessari hugmyndafræði sinni um sjálfbæra nýtingu vatns því hún er ekki svo sama og hugmyndafræði mín. Á sama hátt halda sömu stjórnvöld því fram að þau hafi stundað sjálfbærar veiðar á þorski en við erum öll meðvituð um þær niðurstöður sem eru að koma út úr ráðstefnum Hafrannsóknastofnunar um að svo hafi ekki verið. Ég tel fulla ástæðu til þess að nákvæmlega þessi ríkisstjórn, virðulegi forseti, taki hér aðeins til skoðunar hvað átt er við með hugtakinu sjálfbær þróun og sjálfbær nýting. Ég býst við að ég fái einhvers konar hugleiðingar frá hæstv. ráðherrum báðum varðandi þetta atriði.

Virðulegur forseti. Ég mundi vilja gera að umtalsefni líka umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands þegar málið var hér til umfjöllunar á síðastliðnu vori. Í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar sem birtist þá á þskj. 1270 eru birtar umsagnir þær sem bárust til nefndarinnar og þar með gríðarlega umfangsmikil umsögn og greinargerð frá Umhverfisstofnun um málið. Ég vil fá að vitna til þeirrar umsagnar, hæstv. forseti, vegna þess að ég finn samhljóm með þeim sjónarmiðum sem Umhverfisstofnun lætur í ljósi í umræddri umsögn. Hún gerir athugasemdir við þrjá höfuðþætti frumvarpsins. Hún gerir t.d. athugasemdir um ákvæðin um eignarrétt á vatni, sem eru sömu atriði og ég hef þegar nefnt í ræðu minni. Hún gerir athugasemd við að eytt sé út mikilvægum ákvæðum um rétt og hagsmuni almennings sem er að finna í núgildandi löggjöf, þ.e. löggjöfinni frá 1923, og hún gerir athugasemd við fyrirhugaða stöðu Orkustofnunar sem yfirstjórnar vatnsmála út fyrir skilgreint hlutverk stofnunarinnar þar sem lítil skil séu gerð á gagnasöfnun, stjórnsýslu, framkvæmd og eftirliti.

Undir þessa þrjá meginþætti í gagnrýni Umhverfisstofnunar tek ég.

Síðar í umsögn stofnunarinnar segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun vísar til umfjöllunar um frumvarp til rannsóknar og nýtingar á jarðrænum auðlindum en frumvörpin tvö eru tengd um marga þætti. Þessi tvö frumvörp líða fyrir skort á samráði út fyrir tiltölulega þröngan hóp og litla opinbera umræðu og kynningu. Umhverfisstofnun telur miður að frumvarp til vatnalaga, sem fjallar um mjög afmarkaðan þátt gildandi laga, skuli lagt fram á Alþingi áður en lokið er vinnu við innleiðingu rammatilskipunar ESB um vatn, enda gengur frumvarpið gegn meginviðmiðunum tilskipunarinnar. Jafnframt telur stofnunin að æskilegra hefði verið að bíða eftir fyrirhuguðu frumvarpi um verndun og stýringu vatns og vatnabúskapar sem nú mun vera í vinnslu í umhverfisráðuneytinu.“

Hæstv. forseti. Undir þetta tek ég heils hugar. Ég óska eftir því að hæstv. umhverfisráðherra, sem skammaði forstöðumenn bæði Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands sl. vor fyrir þær umsagnir sem stofnanirnar sendu inn um frumvarp til vatnalaga, geri þingheimi grein fyrir því í þessari umræðu hvar það mál er statt. Vatnatilskipun Evrópusambandsins hefði átt að vera leidd í lög fyrir — ég man ekki hvaða dagsetning það var en það var örugglega 2004, þetta stendur einhvers staðar í greinargerðinni. Í öllu falli erum við fallin á tíma með að innleiða hana. Ég óska því eftir að hæstv. umhverfisráðherra geri okkur grein fyrir hvar málið er statt og á hvern hátt verið er að vinna að lögleiðingu vatnatilskipunarinnar, hversu stóran hluta hennar eigi að taka upp í EES-samninginn og þar fram eftir götunum, ef það er óljóst enn eins og mátti skilja á máli hæstv. umhverfisráðherra í fjölmiðlum þegar þetta mál var til umfjöllunar á síðasta vori.

Umhverfisstofnun áréttar í umsögn sinni þá skoðun að frumvarpi til vatnalaga virðist að grunni til vera ætlað að líta á aðeins mjög afmarkaðan þátt þessa málaflokks og leggur til að heiti þess verði breytt, eins og ég sagði áðan, í frumvarp til laga um orkunýtingu vatns. Hún telur nefnilega, eins og ég get verið sammála, að hin eiginlegu vatnalög hljóti að eiga að fjalla um vatn í víðustu merkingu þess orðs og gildandi vatnalög eigi að standa óbreytt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem þarf að gera, verði frumvarp þetta að lögum, þar til löggjöf sem byggir á lögleiðingu vatnatilskipunarinnar hefur tekið gildi.

Ég tel feng að því, hæstv. forseti, að fá álit hæstvirtra ráðherra á þessu sjónarmiði, á því hvort hin eiginlegu vatnalög, sem ættu að vera til í landinu, þurfi ekki einmitt að vera þau lög sem lúta að umsýslu vatns í hinni víðustu merkingu. Ég held að Umhverfisstofnun geti haft talsvert til síns máls í þessum efnum og tek þess vegna undir það sjónarmið stofnunarinnar að full þörf hafi verið á að endurvinna þetta frumvarp, þörf sé á að leggja það fram að nýju með nútímalegri viðhorfum, sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur ekki sinnt því að hún leggur þetta fram að nýju svo til óbreytt.

Þá er það hið víðtæka samráð sem Umhverfisstofnun saknar. Ég tel að þessi stjórnvöld verði að fara að temja sér samráð í auknum mæli, sérstaklega ef þau meina eitthvað með því að innleiða vissa þætti Árósasamningsins sem fjallar nákvæmlega um það, samráð á sviði umhverfismála. Eins og við vitum eru þrjár meginstoðir í Árósasamningnum. Við erum að innleiða eina þeirra sem varðar upplýsingamál. En ríkisstjórnin situr enn þá á hinum tveimur, þ.e. því að almenningur eigi að eiga aðkomu að ákvarðanatöku í umhverfismálum, og mér sýnist að það sé ekki bara almenningur heldur stofnanir. Stærstu stofnanir umhverfisráðuneytisins kvarta undan því að þær hafi ekki verið hafðar með í ráðum.

Nú lýsti hæstv. iðnaðarráðherra því yfir í fyrri hluta 1. umr. að um þetta mál væri mikil og breið sátt innan umhverfisgeirans, þ.e. stofnana umhverfisráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins og hæstv. umhverfisráðherra. Ég vil fá staðfestingu á því frá hæstv. umhverfisráðherra í þessari umræðu, hæstv. forseti, á hvern hátt það samráð hefur farið fram og hvernig umhverfisráðuneytið og stofnanir þess standa og hvernig afstaða þeirra til málsins er núna.