132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[16:42]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Sérstaklega var spurt um stöðu vatnatilskipunar. Það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er allt hárrétt. Þar hefur textinn verið uppfærður miðað við aðstæðurnar eins og þær eru í dag. Það var 6. október síðastliðinn að formlegar viðræður hófust á milli EFTA og ESB um beiðni EFTA-landanna Íslands, Liechtensteins og Noregs, um aðlögun að vatnatilskipun ESB. Það er skoðun EFTA-landanna að samkvæmt EES-samningnum falli tilteknir þættir tilskipunarinnar ekki undir samninginn. Þessir þættir varða náttúruvernd, dýravernd, auðlindastjórn og gjaldtöku eða skattlagningu fyrir vatnsnotkun. Þetta er allt tíundað í greinargerðinni.

Það er nokkuð víst, þó að verið hafi náið samstarf milli EFTA og ESB um málið á óformlegum nótum, að ferlið getur tekið einhvern tíma. Því er ekki við því að búast að tilskipunin verði tekin upp í EES-samninginn fyrr en eftir áramót. Í framhaldi af því verður unnið frumvarp og á þessari stundu er ekki hægt að segja fyrir um hvenær það verður tilbúið. Það er a.m.k. mjög ólíklegt að það verði á þinginu sem nú stendur. Það er líka tíundað í greinargerðinni að frumvarpið sem hér er til umfjöllunar eigi í engu að skarast við væntanlegt frumvarp um stjórn vatnsverndar, þannig að það sé a.m.k. alveg skýrt. Mér finnst gerð mjög góð grein fyrir þessu í greinargerð með frumvarpinu.