132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[16:44]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég fagna fyrstu orðum hæstv. umhverfisráðherra í umræðunni. Samningar eru hafnir. Frumvarpið liggur fyrir í drögum og þegar samningum lýkur er hægt að flytja það á þinginu hvort sem það verður á þessu þingi eða ekki. En þá eigum við að bíða. Þá er komið af stað ferli sem á að gefa hæstv. iðnaðarráðherra tilefni til að bíða með þessi lög. Það liggur ekkert á að færa þau til nútímans. Þau hafa verið til frá 1923, í 82 ár, og það gerist ekkert þó að þau verði til í eitt ár í viðbót, í 83 ár.

Það er ekki kveðið sterkara að orði hjá rithöfundum hæstv. iðnaðarráðherra um endurskoðun laganna heldur en svo að þar segir, með leyfi forseta, í II. kafla greinargerðarinnar: „Má því segja að tímabært hafi verið að endurskoða lögin.“ — Það er ekki meiri asinn eða flýtirinn og vant að sjá hvað veldur því að þörf sé á að taka þessi lög upp áður en við fáum þessa heildarlöggjöf. Vel kann að vera að það sé rétt hjá hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra að þessi lög séu prýðileg að forminu til, miðað við þau lög sem við fáum um vatnsvernd, þau fyrstu á Íslandi. Það vekur hins vegar ákveðna furðu að markmið lagafrumvarpsins sem við erum með í höndunum er líka það að stuðla að skynsamlegri vatnsnýtingu, hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu vatns. En það er frekar það sem ætti að vera í vatnatilskipuninni, í þeim lögum sem út frá vatnatilskipuninni ganga.

Ég vil fagna þessu og lít á það sem ákveðin vatnaskil í umræðunni, þau orð eru vel við hæfi. Ég skora á iðnaðarráðherra að draga þetta frumvarp aftur og koma með það upp á borðið þegar við erum búin að klára þetta ferli gagnvart Evrópusambandinu og EFTA.