132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[16:48]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Þessar breytingar eru vonandi góðar en þær svara auðvitað ekki þeim spurningum sem vakna við það að flytja þessi frumvörp hvort í sínu lagi eða hvert í sínu lagi eftir því hvernig það fer. En það er bein ástæða til þess að spyrja um það og til þess að gera ráð fyrir því og heimta það að þessi frumvörp verði flutt saman og annað bíði eftir hinu. Sú ástæða kom fram í fyrra í umsögn Umhverfisstofnunar um frumvarp sem var að því leytinu alveg eins, en þar segir beinlínis ekki bara að frumvarpið gangi í aðra átt en norsk og sænsk löggjöf, fyrir lönd sem af Evrópulöndum eru líkust okkur að þessu leyti, hálend vatnslönd, heldur segir líka í umsögn Umhverfisstofnunar að hvað varði fyrirhugaðan rétt landeigenda sé frumvarpið, með leyfi forseta: „… í andstöðu við alþjóðlegar viðmiðanir og skuldbindingar.“

Meðan við ekki höfum frumvarp í höndunum sem samið er í samræmi við þessar alþjóðlegu viðmiðanir og skuldbindingar verð ég að taka fyrirvara og ábendingar Umhverfisstofnunar gild eins og hæstv. umhverfisráðherra hlýtur alla jafna að gera.

Þess vegna segi ég: Það er best að vera ekki að rífast lengur um þetta heldur skoða hvaða frumvarp það er sem við fáum hér út frá alþjóðlegum viðmiðunum og skuldbindingum. Þetta er ekki einhver strákdóni úti á Austurvelli úr Samfylkingunni eða einhverjum öðrum flokkum að hrópa, þetta er Umhverfisstofnun sem segir að þetta frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra, að vísu frumvarpið í fyrra en óbreytt að þessu leyti, sé í andstöðu við alþjóðlegar viðmiðanir og skuldbindingar. Punktur basta. Burt með það.