132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[16:50]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Frumvarpið sem við erum að ræða hér um, frumvarp til vatnalaga, hefur það að markmiði samkvæmt 1. grein, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns. Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.“

Það er hvergi tilgreint hver á meta nauðsynina að öðru leyti en því að Orkustofnun er falið stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk þannig að það er þá væntanlega hún sem á að skera úr um nauðsynina og síðan iðnaðarráðuneytið.

Það er sagt hér í athugasemd við lagafrumvarpið að það hafi verið talið nauðsynlegt að taka stjórnsýslu vatnamála til endurskoðunar. Síðan eru taldir upp þeir aðilar sem hæstv. ráðherra fól að semja drög að frumvarpinu og síðan nefnd sérfræðinga og hagsmunaaðila til að skila endanlegu frumvarpi til vatnalaga til ráðherra.

Þegar maður skoðar aðilana sem eru tilnefndir og unnu þetta frumvarp vekur athygli að enginn þeirra er tengdur náttúruvernd eða umhverfismálum. Þetta eru aðilar sem eru tengdir orkufyrirtækjum og síðan varaformaður Bændasamtakanna sem er auðvitað hagsmunaaðili, bændur nota jú vatn eins og við öll og það í miklum mæli.

Þetta vekur athygli, ekki síst með tilliti til athugasemda sem koma frá ýmsum stofnunum sem frumvarpinu er svo vísað til til umsagnar þrátt fyrir þetta.

Ef maður fer svo í skilgreiningarnar í frumvarpinu, sem eru í 3. gr., þá vakti fyrst athygli mína hversu búsþarfir eru þröngt skilgreindar og ég gerði athugasemd við það í fyrra þegar þetta frumvarp kom hér til umræðu en því hefur ekki verið breytt.

Í umsögn um þessa skilgreiningu segir, þ.e. aðeins hvers vegna talað er um kvikfjárrækt, með leyfi forseta:

„Ástæða þess er sú að kvikfjárrækt er hinn hefðbundni landbúnaður þjóðarinnar. Nú á dögum nýta menn einnig lönd jarða sinna til garðávaxtaræktar, skógræktar, ylræktar, fiskeldis, undir sumarbústaði og ferðamannaþjónustu. Allt getur það stuðlað að því að halda jörðum í byggð, en sjaldnast er þá notaður nema lítill hluti lands jarðanna, sumt stundum tímabundið innan ársins … eða að umfangi langt umfram fjölskyldurekstur …“

Þarna finnst mér, frú forseti, að atriði stangist á í röksemdafærslunni. Ég tel mjög mikilvægt að öllum búgreinum og starfsemi á jörðinni, ef frá er talinn kannski iðnrekstur, sé gert jafnhátt undir höfði og vek athygli á því að t.d. ylrækt og garðávaxtarækt er vatnsfrekur búskapur en þeim greinum er ekki gert jafnhátt undir höfði og kvikfjárrækt og það finnst mér mjög einkennilegt og miður þar sem ég tel það afar brýnt að öllum tiltækum ráðum sé beitt til þess að halda bújörðum í byggð. Bújarðir eru eitthvert alviðamesta og veigamesta net til að viðhalda byggð á Íslandi. Og mér finnst mjög undarlegt að nýjum búgreinum sé ekki — og þó ekki endilega nýjum — að öllum búgreinum sé ekki gert jafnhátt undir höfði og stutt við þær í þessum lögum sem öðrum.

Ég ætla líka að vekja athygli á því að í skilgreiningarkaflanum er vatn skilgreint í ýmsum samsetningum, en vatn er víða til umfjöllunar í frumvarpinu, ýmist sem efnið H 2 O eða annars konar vatn. Í skilgreiningarkaflanum er það ekki skilgreint nánar en sem vatnsflæði, vatnsfall, vatnsból, vatnsleg, vatnsmiðlun og vatnsnýting, vatnsveita eða vatnsvirki. Í ýmsum greinum frumvarpsins lítur út fyrir að verið sé að tala um það sem ég ætla að kalla veiðivötn eða stöðuvötn skulum við segja, en þar er talað um vatn. Í þessum greinum getur það sem um er rætt alveg eins átt við vatnsfall eða á. Mér finnst ekki nógu vandað hvernig frá þessu er gengið, að það þurfi að skilgreina eða breyta orðalagi þannig að ljóst sé hvenær er verið að tala um veiðivatn eða stöðuvatn, hvenær umrædd grein á að ná eingöngu yfir það eða hvort hún á að ná líka yfir ár, sem eins og ég segi getur vel verið. Því í frumvarpinu er m.a. verið að fjalla um vatn í tengslum við virkjanir og mannvirki sem maður getur hugsað sér að séu ætluð vegna virkjana, t.d. stíflugerð og annað.

Í skilgreiningarkaflanum er einnig fjallað um jarðhita. Ég er búin að lesa þetta frumvarp þó nokkuð yfir, ég hef ekki lesið það frá orði til orðs en ég hef ekki komið auga á að fjallað sé um jarðhita í því nema í skilgreiningarkaflanum og svo í greinargerð, þ.e. á bls. 25 en þar er fjallað um jarðhita. Mér er spurn: Af hverju er verið að fjalla um eða skilgreina jarðhita þarna og fjalla svo um hann í skýringum við grein, fyrst ekki er fjallað um hann á annan hátt, ekki í frumvarpinu sjálfu eftir því sem ég fæ best séð? Er með því móti verið að færa Orkustofnun á einhvern nýjan hátt ákveðið lögsagnarumdæmi yfir jarðvarma eða stjórnsýslu? Ég spyr.

Ég veit að að ýmsu leyti hefur verið reynt að halda í hið forna orðalag sem var á vatnalögum en í sumum tilfellum finnst mér fulllangt gengið í því efni og of skammt gengið í því að færa hlutina til nútímans því að það er jú tilgangur frumvarpsins.

Í 16. gr. segir, með leyfi forseta:

„Nú er vatn of lítið til að fullnægja þörfum þeim sem í 15. gr. segir og á þá hver sú fasteign sem tilkall hefur til þess vatns sama tilkall til vatnsins eftir þörfum sínum.“

Mér finnst þetta mjög óskýrt. Ég get getið mér til um hvað er verið að meina þarna. Ég hugsa að það sé verið að tala um einhvers konar hlutföll, hlutfallslegan rétt, en mér finnst að það eigi að standa þarna.

Síðan er í 15. gr. talað um forgang að vatni og það er verið að breyta forgangsröðun. Um það er fjallað á bls. 32 í skýringum með 15. gr. Í gömlu lögunum er forgangsröðunin þannig, með leyfi forseta, að heimilisþarfir ganga fyrir búþörfum, búþarfir ganga fyrir notkun í þágu iðnaðar og iðju án orkunýtingar, notkun til iðnaðar og iðju án orkunýtingar gengur fyrir áveituþörfum, áveitur ganga fyrir nýtingu vatns til orkuvinnslu.

Í frumvarpinu eins og það er nú er aðeins talað um að heimilisþarfir gangi fyrir búsþörfum og segir, með leyfi forseta:

„Ekki þykir lengur ástæða til að áveitur gangi fyrir réttinum til að nýta vatn til orkuvinnslu eða kveða sérstaklega á um það að notkun til iðnaðar og iðju án orkunýtingar gangi fyrir áveituþörfum. Er því lagt til að þessi nýting teljist jafnrétthá.“

Það er mín skoðun, frú forseti, að áveituþarfir t.d. eigi að ganga fyrir orkuvinnslu. Það getur háttað þannig til að áveitur séu nauðsynlegar fyrir búskap og geti ráðið úrslitum um það hvort búandi sé á tilteknu svæði.

Umhverfisstofnun gerir margháttaðar athugasemdir við frumvarpið og þar segir m.a. að þetta frumvarp sé háð verulegum annmörkum þar sem það lúti aðeins að hluta þeirra sjónarmiða sem sett eru fram í tilvísaðri greinargerð sem rök fyrir því að breyta þurfi núverandi vatnalögum, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun bendir á að frumvarpinu virðist að grunni til vera ætlað að líta á orkunýtingu vatns, sem er mjög afmarkaður þáttur þess málaflokks sem lýtur að vatni, vatnsbúskap, nýtingu og verndun vatns.“

Þetta staðfestist með því að Orkustofnun er falið stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk með þessum lögum. Það kemur fram í greinargerð að það sé fyrir utan lögbundið hlutverk Orkustofnunar.

Umhverfisstofnun segir einnig, með leyfi forseta, að frumvarpið taki ekki eða nánast ekki til umhverfismála, vatnafars og vatnsbúskapar í víðasta skilningi þar sem lögð er áhersla á umhverfið og verndun þess, enda komu umhverfisstofnanir og náttúrufræðistofnanir ekki að samningu þessa frumvarps, eins og ég sagði. Það er líka athyglisvert að síðan í fyrra virðist ekki hafa verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem þessar stofnanir gera við frumvarpið í þeirri mynd sem það var þá.

Það er líka vísað í frumvarp til rannsókna og nýtingar á jarðrænum auðlindum en það er ekki tekið tillit til þess í þessu frumvarpi. Umhverfisstofnun bendir líka á, eins og margoft hefur komið fram í máli manna í dag, að það sé ekki eðlilegt að það sé verið að reka svona á eftir þessu frumvarpi áður en rammatilskipun ESB um vatn er tekin fyrir. Eins og fram kom í máli hæstv. umhverfisráðherra áðan þá mun verða skammt í að það frumvarp komi fram. Auk þess er væntanlegt frumvarp um verndun og stýringu vatns og vatnsbúskapar og hefði verið eðlilegt að taka það fyrir jafnframt þessu frumvarpi.

Náttúrufræðistofnun Íslands leggst í umsögn sinni eindregið gegn þeirri fyrirætlan að vatn sé skilgreint sem jarðræn auðlind og falin iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vatn er í grundvallaratriðum frábrugðið öðrum jarðefnum að því leyti að það finnst náttúrlega í þrenns konar formi, þ.e. í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn. Stofnunin lagði áherslu á að þótt vatn geti verið orkugjafi, og þar með verslunarvara, þá sé það fyrst og fremst lífsnauðsynlegt efni öllum mönnum og öllum lífverum. Forgangsröðin varðandi umsjón með og vöktun vatns er þess vegna hollustuhættir, umhverfi og orkunýting en ekki öfugt.“

Ég vek enn athygli á því að með þessu nýja frumvarpi er verið að breyta um stefnu í þessu efni. Það er verið að víkja yfirráðum yfir vatni til iðnaðarráðuneytis og Orkustofnunar.

Það stendur líka í umsögn Náttúrufræðistofnunar að hlutverk Orkustofnunar sé fyrst og fremst að hafa umsjón með orkulindum landsins og eins og ég benti á áðan er verið að fara út fyrir hlutverk stofnunarinnar með því hlutverki sem er verið að fela henni.

Það má segja að það komi fjölbreytilegar athugasemdir við þetta frumvarp frá ýmsum aðilum, (Iðnrh.: Er það ekki annað frumvarp?) bæði frá Náttúrufræðistofnun og þeim sem ég hef talið hér áðan og einnig frá Sambandi sveitarfélaga o.fl. Mér finnst líka mjög athyglisvert, frú forseti, að þeim aðila sem er falið að meta umsagnirnar er akkúrat Orkustofnun. Það finnst mér líka sérkennilegt, frú forseti.