132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:34]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn vinstri grænna hafa sett á langar ræður um þetta mál sem við erum að ræða hér öðru sinni á þessu þingi.

Mér þykir það mjög alvarlegur hlutur, líkt og hv. þingmenn vinstri grænna hafa verið að gefa í skyn, að frumvarp þetta snúi að því að aðgengi fólks muni hugsanlega skerðast gagnvart neysluvatni. Hv. þingmaður á að hafa kynnt sér það og ég veit að hann hefur kynnt sér það að í lögum frá 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu þá er aðgengi sveitarfélaganna, forgangur sveitarfélaganna, tryggður að vatnsauðlindinni. Við höfum svo lög um vatnsveitur sveitarfélaga sem skylda sveitarfélögin til að útvega almenningi, heimilum og fyrirtækjum neysluvatn. Við erum ekki að tala um það hér að skerða aðgengi almennings að neysluvatni. Það er lýðskrum að tala með þeim hætti eins og hv. þingmenn vinstri grænna hafa gert hér.

Ég hef ekki heyrt annað, hæstv. forseti, í þessari umræðu en að hv. þingmenn vinstri grænna vilji gera þessa auðlind að almenningseign og færa hana aftur undir eign ríkisins. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að þá skulu menn líka segja B. Þá fer fram stórfelld eignaupptaka hjá bændum og öðrum landeigendum í þjóðfélaginu vegna þess að árið 1998 var vatnið skilgreint sem auðlind og auðlind fylgir fasteign hverri samkvæmt lögum frá 1998. Annaðhvort verða menn að fara í eignaupptöku hringinn í kringum landið eða kaupa þessi réttindi af landeigendum sem yrðu væntanlega margföld fjárlög íslenska ríkisins.

Er nema von að spurt sé: Hvað vilja vinstri grænir í þessum efnum? Vilja þeir eignaupptöku eða kaup á þessum réttindum eða vilja þeir viðhalda því ástandi sem verið hefur allt frá árinu 1923 í þessum efnum? Við viljum fá svar við því.