132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:38]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er erfitt að fá svör hjá hv. þingmanni um hvað hann vill í þessum efnum. En ég hef túlkað ræður hv. þingmanna vinstri grænna á þá leið að þeir vilji helst ekki gera neitt, ekkert liggi á að breyta neinu í þessum efnum. Það er eins og stefna þeirra er í mörgum öðrum málaflokkum, (Gripið fram í.) það liggur yfirleitt ekkert á hlutunum og það er ekki nauðsynlegt að fara í neinar breytingar, hæstv. forseti.

Ég vil að lokum segja, hæstv. forseti, að búið er að breyta þessu frumvarpi meira að segja í þá átt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um á sínum tíma, að menn yrðu að standa vörð um að almannaréttur standi óhaggaður gagnvart aðgangi að vatni. Búið er að taka þetta inn í greinargerð með frumvarpinu þannig að sá almannaréttur mun standa óhaggaður. Ég fór yfir aðgengi að neysluvatni hér áður. Sá réttur almennings mun standa óhaggaður og því er eðlilegt að spurt sé, hæstv. forseti: Á móti hverju er Vinstri hreyfingin – grænt framboð? Og í síðasta lagi: (Forseti hringir.) Hvað vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð í þessum málum?