132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:41]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir þau orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að vatnalögin frá 1923 eru mjög merkilegur lagabálkur og merkilegt lagasetningarstarf sem unnið var á árunum áður en þau voru sett, m.a. af Bjarna frá Vogi og Einari Arnórssyni og fleiri góðum mönnum sem þar komu að.

Hins vegar eru þessi lög frá 1923 og ýmislegt hefur breyst í samfélagi okkar frá því að vatnalögin voru sett sem ástæða er til að bregðast við og það er gert í þessu frumvarpi. Ég skil ekki almennilega heift þingmannsins út í þá skilgreiningu sem fram kemur á vatnsréttindum fasteignaeigenda í frumvarpinu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé miklu einfaldara og skýrara að hafa skilgreininguna með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir heldur en þeim sem hv. þingmaður talar fyrir, vegna þess að í þessum málum eins öðrum efast ég um að hægt sé að vera með tæmandi talningu á öllum réttindum sem hugsanlega geta fallið undir ákvæði frumvarpsins eða laganna.

Þegar verið er að setja lög, og það vita allir sem lesa Lagasafnið, að þar er ekki talið upp með tæmandi hætti allt sem má. Réttur okkar byggist miklu frekar á því að það sem ekki er bannað sé leyft.

Síðan verð ég að segja að það gleður mig mjög að sjá að hv. þingmaður sýnir sitt rétta andlit í tengslum við þetta mál. Hann er í andstöðu við einkaeignarréttinn og hefur lýst því hér yfir að hann sé þjóðnýtingarsinni. Þetta er náttúrlega bara kommúnismi af gamla skólanum og það gleður mann mjög að sjá úr hverju þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru gerðir (Forseti hringir.) þegar að slíkum málum kemur.