132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:43]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég nenni nú ekki að ræða þetta í einhverjum útúrsnúningum. Það sem ég hef lagt áherslu á er að ég er andvígur því að útvíkka einkaeignarréttinn gagnvart vatni þannig að einkaeignarréttarlegri skilgreiningu verði slegið á það fyrirbæri eins og það leggur sig á Íslandi. Það er það sem verið er að tala um, að vatn í föstu, fljótandi og loftkenndu formi skuli falla undir einkaeignarréttarlegar skilgreiningar.

Hvað ætla menn að draga mörkin? Ég veit að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vill hafa allt sem hugsast getur í einkaeign. Hann vill örugglega leggja í víking út í geiminn til að reyna að ná þar fram einhverjum einkaeignarrétti og jörðin að verða of lítil fyrir hann.

Mér finnst ansi langt gengið að reyna að slá einkaeignarrétti á vatnið svo langt niður í iður jarðar sem það kann að komast og vatn bara yfir höfuð sem fyrirbæri á hvaða formi sem það finnst. Það er himinn og haf á milli þess að nálgast þetta með þeim hætti sem vatnalögin gera á sínum tíma og skilgreina þann rétt sem hver og einn hefur til hvers konar nýtingar, til vatnstöku, til áveitna o.s.frv. og hins sem hér er verið að leggja til. Eða er hv. þingmaður, sem lögfræðingur, ekki sammála mér að hér sé verið að gera breytingu? Er hægt að særa játningu upp úr hv. þingmanni hvað það varðar? Það væri fróðlegt í framhaldi af orðaskiptum mínum, ef orðaskipti skyldi kalla, við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hér áðan.

Ég les þetta þannig að hér sé í raun og veru verið að færa þessi landamæri út. Mér er ómögulegt að skilja það öðruvísi. Ég vil hafa vaðið algerlega fyrir neðan mig í þeim efnum að við förum ekki að setja lög hér á Íslandi í dag sem ganga þvert á þá þróun sem er í gangi á alþjóðavettvangi og ég tel rétta, að skilgreina vatn sem sammannlega auðlind, (Forseti hringir.) nauðsynlega til viðhalds alls lífs og ekki verslunarvöru.