132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svar hv. þingmanns veldur mér vonbrigðum því að ég hafði ætlað hv. þingmanni það að hafa á þessu faglegri skoðun. Ég veit að vísu að hugur hans stendur mjög til þess að fá að svara þessari spurningu svona en ég gerði mér vonir um að hv. þingmaður hefði lesið frumvarpið þannig að hann kæmist að annarri niðurstöðu.

Spyrjum á móti: Segjum að Alþingi Íslendinga væri í allt öðrum sporum, að það væri að fjalla um löggjöf sambærilega þeirri sem Hollendingar hafa nýlega sett, sem skilgreinir vatn sem sameiginlega auðlind, og segjum að verkefni okkar hefði verið að draga upp landamæri milli þess og þess réttar sem lög og dómar hafa fært mönnum í einkaeignarréttarlegum skilningi, þ.e. afnotaréttar eða nýtingarréttar eins og þetta hefur verið, á grundvelli tiltölulega tæmandi upptalningar vatnalaganna frá 1923, og þá var viðfangsefnið alveg hið gagnstæða, ekki satt? (Gripið fram í.) Að fara yfir það hvernig þessir tvær þættir væru samrýmanlegir og þeir eru það að mínu mati enn þá en þeir verða það síður ef menn innleiða þessa skilgreiningu (Forseti hringir.) og snúa þessu við eins og hér er lagt er til frá því sem verið hefur á gildandi rétti.