132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:48]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til vatnalaga sem hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins flytur. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart þó að hér birtist úr þeirri átt enn eitt frumvarpið sem lýtur að einkavæðingu auðlindanna. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Framsóknarflokkurinn er hættur að gera greinarmun á því hvað sé samfélagsleg sameign og hvað sé hægt að markaðsvæða og selja. Fyrir þeim er það eitt. Finnist eitthvað sem hægt er að selja skal það selt.

Undanfarin ár höfum við upplifað að Framsóknarflokkurinn hefur gengið fram í því samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að einkavæða almannaeignir. Síðast var það t.d. markaðsvæðing rafmagnsins og ég minnist þess að hæstv. iðnaðarráðherra átti varla orð til að lýsa fögnuði sínum yfir því hvað það gekk vel.

Við markaðsvæðinguna á rafmagninu, sem er upphafið að einkavæðingu og sölu raforkufyrirtækjanna eins og hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins boðaði, þá upplifum við það að nú þegar hafa þær aðgerðir leitt til aukins misréttis á milli þegna þjóðfélagsins. Heilu landshlutarnir mega nú líða fyrir stórhækkað raforkuverð sem að mati iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins er bara eðlilegt af því að verið sé að markaðsvæða hlutina, rafmagnið sem áður var hluti af almannaþjónustu og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs litum á og reyndar meginþorri almennings á landinu leit á sem grunnalmannaþjónustu.

Og nú er komið að vatninu. Nú skal ganga milli bols og höfuðs með því að einkavæða vatnið. Þetta er í anda þess sem Framsóknarflokkurinn er að gera á öllum sviðum, sérstaklega því sem lýtur að umhverfismálum, enda hefur lítið heyrst frá umhverfisráðherranum í þessum málum. Hún virðist hafa orðið alveg undir í þessum dansi við Framsóknarflokkinn hvað lýtur að verndun vatnsins og verndun umhverfisins. Hér hefur verið boðað að verið sé að vinna að einhverju vatnsverndarlagafrumvarpi og hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt kotroskin að henni komi ekkert við hvað því líði, það sé ekki hennar mál sem ráðherra, það sé málefni umhverfisráðherra. (Gripið fram í: Rétt hjá henni.) Það er hárrétt hjá þingmanninum, það er rétt hjá iðnaðarráðherra. En maður veltir fyrir sér geðleysi umhverfisráðherra að láta valta svona gjörsamlega yfir sig í þessum efnum því að vatn er jú hornsteinn lífsins á jörðinni. Ef eitthvað stæði umhverfisráðherra nær þá væri það að sá ráðherra kæmi fyrst með lagabálk sem lyti að stöðu vatns og verndun þess bæði til nútíma og framtíðar. Það ætti að koma númer eitt. Því hvað er umhverfi okkar, hvað er náttúra okkar án vatns? En geðleysi umhverfisráðherrans á sér ekki nein takmörk og að sjálfsögðu kemur það iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins ekkert við þó að níðst sé á grunnþáttum lífs og umhverfis eins og vatni. Þessi lög eru einmitt liður í því.

Í 1. gr. þessa lagafrumvarps stendur, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“

Og þetta á að heyra undir iðnaðarráðherra. Ef þetta hefðu nú verið orð mælt úr munni umhverfisráðherra og síðan kæmi framhald á þeim grundvelli hefði þetta kannski leitt til annars. En hæstv. umhverfisráðherra lætur ekki svo lítið að eyða orðum í þessa umræðu, vatn virðist ekki koma hæstv. ráðherra neitt við.

Í þessu frumvarpi er síðan gengið lengra en áður í að skilgreina hvað er vatn til þess að taka af öll tvímæli að vatn heyri undir hæstv. iðnaðarráðherra sem iðnaðarvara.

Í 2. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Þá er náttúrlega eðlilegt að spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Hvaða önnur lög gilda þá eða hvernig ætlar hæstv. umhverfisráðherra að koma að þessum málum eftir á eftir að hæstv. iðnaðarráðherra hefur fengið allt sitt fram varðandi einkavæðingu vatnsins? (Gripið fram í: Hvers lags …?) Ja, er að furða, frú forseti, þó að sumum framsóknarmönnum blöskri þegar þeir heyra sannleikann um hvað hér er á ferðinni?

Ég velti því fyrir mér hvort iðnaðarráðherra geri sér grein fyrir því að einhver ábyrgð geti líka fylgt því að eiga hlutinn. Það stendur hérna „í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi“. Við skulum gera ráð fyrir því að þarna sé snjórinn meðtalinn af því að snjórinn getur verið auðlind (Gripið fram í: Skíðasvæðin.) Já, skíðasvæðin, segir hv. þingmaður, sem nú mundu samkvæmt þessum lögum heyra undir iðnaðarráðherra. Og snjórinn á vegunum þegar farið verður að ryðja vegina, heyrir það þá ekki líka undir iðnaðarráðherra? Hæstv. iðnaðarráðherra flýr nú úr salnum því að hún áttaði sig ekki á þessu. En samkvæmt lögunum heyra þessi mál undir iðnaðarráðherra með þessum hætti, vatn í öllum birtingarformum þess. Og er ekki snjór …? (Gripið fram í: Þvílíkur kjaftháttur.)

Umhverfisráðherra hæstv. veltir því fyrir sér hvað sé þá eftir fyrir hana til að fást við í sínum lagabálki. Stendur ekki í þessum lögum að þau þessi taki til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi? Hefur hæstv. ráðherra ekki lesið það? Það þýðir ekki annars vegar að grínast með hlutina og hins vegar að láta sem ekkert sé.

Frú forseti. Það er verulegt áhyggjuefni þegar staða umhverfismála hér á landi er sú að hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins horfir á það eitt hvernig hún eigi að einkavæða og markaðsvæða almannaeignir, þjóðareignir, og að vatnið skuli vera í höndum slíks ráðherra en umhverfisráðherra hafi ekki nein afskipti af því.

Hér er verið að breyta í grundvallaratriðum frá því sem áður hefur verið um skilgreiningu á vatni. Áður þurfti að telja upp og skýra, tilgreina þau not og nýtingarréttindi sem fasteignareigandi hafði af sínu vatni. Nú hefur þessu verið snúið á hinn veginn þannig að skýra þarf í lögum fyrir fram hver not hann ekki hefur eignarrétt á. Hér er því um grundvallarbreytingu að ræða.

Frú forseti. Það er líka alveg makalaust að við skulum vera að ræða um hvernig einkavæða megi vatn þegar umræðan er á hinn veginn annars staðar í heiminum, hvernig tryggja megi samfélagslega eign á vatni. Þegar ég segi eign þá er það ekki núverandi samfélags heldur samfélags ókominna kynslóða. Vatnið er ekki síst sameign þeirra sem ófæddir eru. Þetta eru menn að ræða á vettvangi alþjóðasamfélagsins en hér á Íslandi erum við að ræða um hvernig við getum hert einkavæðingartökin á vatninu. (Gripið fram í: Hvað viltu gera?)

Frú forseti. Hv. þingmaður Framsóknarflokksins, Birkir Jón Jónsson, kallar fram í hvað ég vilji gera. Ég vil losna við Framsóknarflokkinn úr ríkisstjórn. Það er alveg klárt. Það er alveg óskaplegt að búa við þá stefnu sem sá flokkur, Framsóknarflokkurinn, hefur rekið hvað varðar umhverfismál í landinu og einkavæðingu.

Ég minnist ferðar minnar til Palestínu í vor. Við heimsóttum hinar palestínsku byggðir og við heimsóttum einnig Ísrael. Þá komumst við að raun um að stríðið í Palestínu snýst að stórum hluta um vatn, um að ná réttindunum yfir vatninu, yfir því hvar vatnið fellur, yfir stöðuvötnunum og yfir ánum. Ísraelsmenn í sinni hertöku á palestínsku landi hafa lagt meginþunga á að hertaka vatnssvæðin og ráða yfir vatnsbólunum, enda mátti fljótlega greina þau hús sem Palestínumenn byggðu því þar voru söfnunargeymar vatns uppi á þökum því Ísraelsmenn réðu vatnslindunum og réðu því hvort vatn færi eftir leiðslum til þessara íbúa.

Ég minnist þess líka þegar við komum upp í Gólanhæðir sem Ísraelsmenn hernámu. Þar fellur sem rigning stór hluti vatnsins sem síðan er notað til neyslu, akuryrkju og landbúnaðarstarfa bæði í Palestínu og Ísrael. Þá höfðu Ísraelsmenn þar tekið upp skömmtun á vatni til bændanna í Gólanhæðum. Þeir brugðust við og reyndu að safna regnvatni í geyma til að geta síðan ráðstafað til sinnar neyslu og landbúnaðarstarfa. Ekki líkaði Ísraelsmönnum þetta vel og að sögn þeirra sem við hittum þá þar töldu þeir sig líka eiga regnvatnið og vildu skattleggja þessa bændur í Gólanhæðum fyrir að safna regnvatni. Þarna var ekki litið á vatnið sem samfélagslega eign, ekki einu sinni rigninguna. Manni var hugsað til þess hvað mundi gerast á Íslandi ef hið sama væri hér uppi á teningnum þó svo að við búum líka venjulega við nægjanlegt vatn svo fremi og svo lengi sem það er í þjóðareign og öllum til ráðstöfunar.

Frú forseti. Ég minnist þess að haldin var ráðstefna hér á landi fyrir skömmu um vatn fyrir alla. Þar var ítrekað að vatn væri fyrir alla, vatn væri ekki bara fyrir hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins til að einkavæða. Ég minnist þess að biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, hélt þar afar áhrifamikið opnunarerindi um stöðu vatnsins. Hann minntist heimsóknar til Eþíópíu. Þar hafði hann komið í einn dal þar sem lítil á rann og fólkið hafði sótt vatn í hana. Nú hafði þar einmitt komið svona eignarréttarákvæði á þetta vatn, svipað og verið er að leggja til í þessu frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Það heitir að koma upp skýrum eignarréttarákvæðum. Hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins sagði nauðsynlegt að hafa eignarréttarákvæðin skýr. Þarna í dalnum í Eþíópíu var einmitt lögð áhersla á að eignarréttindi á þessu vatni í dalnum væru skýr. Þau voru svo skýr að það var hægt að selja þau Coca Cola-verksmiðju. Coca Cola setti upp verksmiðju og framleiddi kók og sló eign sinni á vatnið. Eignarréttarákvæðin hafa greinilega verið nægilega skýr til að hægt væri að gera þetta. Það er mikilvægt að hafa eignarréttarákvæðin skýr, sagði hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins áðan. Þau voru það skýr að hægt var að selja vatnið í einum dal til Coca Cola-verksmiðju og íbúarnir máttu síðan súpa seyðið af því.

Þessi ráðstefna var haldin 29. október síðastliðinn og aðild að henni áttu allmörg félagasamtök, félagasamtök sem líta ekki á vatn sem hverja aðra sjálfsagða verslunarvöru sem lýtur lögmálum markaðarins, eins og hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins vill. Hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins vill að vatn sé bara markaðsvara, að hægt sé að selja það eins og rafmagnið. Þarna héldu samtök ráðstefnu um vatn fyrir alla. Ég held að það hefði verið hollt ekki bara fyrir hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins að sækja slíka ráðstefnu heldur líka ýmsa aðra þingmenn og forustumenn Framsóknarflokksins sem sjá það eitt hvernig megi einkavæða og markaðsvæða auðlindir framtíðarinnar. Í ályktun sem þarna var samþykkt stendur, með leyfi forseta — og ég ítreka að ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins ætti að lesa kvölds og morgna í stað þess að hafa þá afstöðu sem hefur birst okkur í þingsölum, að það sé svo mikilvægt að skýra eignarréttarákvæði vatnsins til að hægt sé að gera það að verslunarvöru. Þarna stendur, með leyfi forseta:

„Undirrituð samtök vilja með sameiginlegri yfirlýsingu þessari vekja athygli ríkisstjórnar, sveitarstjórna, stofnana, fyrirtækja og almennings á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir land, þjóð og lífríki. Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.“

Þetta er upphafsmálsgrein yfirlýsingar sem gefin var á þessari ráðstefnu. Fróðlegt væri að heyra hvað hæstv. umhverfisráðherra segir um að vera sett í aðra eða þriðju röð um afskipti af vatni þvert á þær áherslur sem bæði alþjóðasamfélagið hefur og við á Íslandi höfum varðandi vatn, þ.e. að fyrst sé litið á vatnsverndina. Það á að hugsa til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.