132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:08]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki oft sem sá sem hér stendur er orðlaus. En eftir ræðu hv. þingmanns sem stóð í alllanga stund á ég ekki til eitt einasta aukatekið orð yfir þessum málflutningi. Hv. þingmaður fór út og suður. Það var engan veginn hægt að átta sig á því hvert hv. þingmaður vildi stefna eða hvað hv. þingmaður vildi gera.

Hv. þingmaður talar um einkavæðingu vatnsins. Hv. þingmaður er með einkavæðingu vatnsins á heilanum. Hér er ekki verið að breyta nokkuð sköpuðum hlut hvað eignarrétt landeiganda varðar. Dómafordæmi Hæstaréttar sannar það frá 1923. Lög voru sett hér árið 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu þar sem vatnið er skilgreint sem auðlind og auðlind fylgir eignarlandi hverju. Þau voru sett árið 1998. Hér er ekki verið að einkavæða eitt eða neitt eða verið að breyta neinu. Hv. þingmaður er gjörsamlega úti á túni í sínum málflutningi hvað þetta varðar og (Forseti hringir.) er ekki flokki sínum til vegsauka í þessari umræðu.