132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:13]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að taka undir það sem hér kom fram. Ég hef sjaldan heyrt aðra eins ræðu og þá sem hér var flutt í umræðum um vatnalög. Þar bar á góma málefni hernumdu svæðanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Eþíópía kom við sögu. Jafnvel þjóðkirkjan var hér til umfjöllunar. Ég skildi nánast ekkert í því sem hv. þingmaður var að fjalla um nema þó eitt: Það er greinilegt að hv. þingmaður er þjóðnýtingarsinni. Hann vill þjóðnýta vatnið í hvaða mynd sem er og hafa af landeigendum og bændum þessa lands þau réttindi sem þeir hafa haft um margar aldir og miklu lengur en frá 1923. Hvernig í ósköpunum ætlar hv. þingmaður að bregðast við því þegar landeigendur sem hafa átt þennan rétt — hann hefur verið staðfestur af Hæstarétti Íslands trekk í trekk — hvernig í ósköpunum ætlar hann að bregðast við þegar bændur og landeigendur (Forseti hringir.) setja fram sínar kröfur um bætur fyrir þessa þjóðnýtingu?