132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom í málflutningi hv. þm. Jóns Bjarnasonar og furða mig jafnframt á yfirlýsingum sem komið hafa frá ýmsum þingmönnum Framsóknarflokksins. Hv. þm. Jónína Bjartmarz kveður sér hljóðs og spyr hverju sé verið að breyta efnislega með þessu frumvarpi. Annar þingmaður, hv. þm. Birkir J. Jónsson, kom upp fyrir stundu og sagði að með þessu frumvarpi væri verið að festa í sessi eignarrétt yfir vatni, eignarrétt bændanna. Ég beini því til hv. þm. Jónínu Bjartmarz að hún eigi orðastað við hv. þm. Birki J. Jónsson og spyrji hvað hann hafi átt við með þessu.

Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar var lagt fram á síðasta þingi og kemur nú fram að nýju lítið breytt. Það kom mörgum okkar á óvart hve lítið það hafði breyst frá því það kom síðast fram. Hvers vegna? Vegna þess að þingflokksformaður Framsóknarflokksins hafði lýst því yfir á opinberum fundi, ekki alls fyrir löngu, að þá kæmi frumvarpið fyrst fram að á því hefðu verið gerðar verulegar breytingar. Síðan er ekkert að marka þessar yfirlýsingar. Frumvarpið sem liggur fyrir framan okkur er mjög lítið breytt frá frumvarpinu sem fram kom á síðasta þingi en enda þótt ekki sé liðinn langur tími hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan. Hvað hefur breyst? Jú, það hefur orðið, bæði hér á landi og víða annars staðar, vitundarvakning í tengslum við vatnið. Auðvitað eru aðstæður manna mjög misjafnar. Við höfum gnótt vatns hér á landi. Síðan eru svæði sem hafa lítið vatn. Menn skulu fara varlega í að hæðast að þeim frásögnum sem hv. þm. Jón Bjarnason greindi frá áðan, frá Gólanhæðunum, þar sem menn berjast um vatnið, ísraelska hernámsliðið meinar Palestínumönnum aðgang að vatni og hefur af þeim dýrmætar vatnslindir.

Við vitum að á þurrkasvæðum heimsins þarf ekki að kenna neinum að meta mikilvægi vatnsins. Þar snýst lífið, öll tilveran, um vatn. Í okkar heimshluta og hér í okkar landi höfum við lengi verið meðvituð um mikilvægi vatnsorkunnar. Undir lok 19. aldar og á fyrstu árum 20. aldar hófst mikil umræða um yfirráð yfir vatninu og vatnsorkunni. Fossalögin frá 1907 gengu fyrst og fremst út á að koma í veg fyrir að útlendingar öðluðust yfirráð yfir vatnsaflinu. Út á það gengu þau lög. Síðan fer af stað mikil vinna 1917 og skipuð fossanefnd, sem vinnur að nýju frumvarpi í nokkur missiri og ár. Hún nær ekki saman, meiri hlutinn og minni hlutinn. Hún klofnaði. Upp úr því var soðið nýtt frumvarp þar sem reynt var að taka tillit til sjónarmiða beggja aðila. Í greinargerð með því frumvarpi er reynt að ráða í hvort sjónarmiðið hafi verið ríkara í vatnalögunum frá 1923. Var það sjónarmið meiri hlutans, sem lagði áherslu á almannaeign á vatni, eða hins vegar sjónarmið minni hlutans, sem lagði áherslu á einkaréttinn?

Hvað hefur gerst síðan? Á síðustu árum hafa komið til sögunnar lög sem eiga rætur í þessum lagabálki. Við höfum haft til umfjöllunar lög um vatnsveitur. Það hefur verið vitnað í lögin frá 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem ég tel eitt mesta óheillafrumvarp sem hér hefur verið samþykkt í langan tíma. Ég minnist þess að í þingflokki mínum, sem ég sat í árið 1998, þ.e. Alþýðubandalagi og óháðum, héldum við fréttamannafund í Elliðaárdal fyrir framan heitavatnsborholuna til að leggja áherslu á varnaðarorð okkar. Upp úr þessari borholu kom ígildi hálfs milljarðs kr. á þeim tíma. Þessi borhola var á eignarlandi Reykjavíkurborgar. Ef hún hefði verið á eignarlandi í dalnum hefðu lögin, sem þau gerðu, fest eignarhaldið á vatninu í höndum einstaklinga. Menn hneykslast yfir því, þegar menn taka bakföll yfir því að við viljum að almenningur og þjóðin eigi þessar auðlindir. Hér var rætt um þjóðnýtingu. Já, við viljum að almenningur eigi vatnið, eigi þessa auðlind. Þá kem ég að vitundarvakningunni sem ég vísaði til.

Í heiminum öllum er fólk að vakna til vitundar um mikilvægi vatnsins sem auðlind. Menn horfa til vatnsins sem undirstöðu í vistkerfinu, í náttúrunni, og svo einnig til vatnsins sem takmarkaðrar auðlindar. Þá höfum við tekið undir með hæstv. iðnaðarráðherra þegar hún segir að að sjálfsögðu þurfi að endurskoða lagabálk sem settur hafi verið 1923. Gott og vel. Gerum það. En svörum þá líka kalli tímans og spyrjum hvert það kall er. Það er ákall um náttúruvernd. Það er ákall um mannréttindi og það er ákall um að tryggt sé í stjórnarskrá landanna að vatnið og aðgangur að því sé lögfest þar. Eftir þessu er fólk að óska.

Ég kaupi það ekki þegar menn segja að með lagabreytingunni nú sé aðeins verið að breyta um form, innihaldið sé hið sama, því að jafnvel þótt svo væri, sem ég samþykki þó ekki, þá væri það frá þessu fyrirkomulagi sem við ættum að færa okkur yfir í nýtt fyrirkomulag sem byggir á almannaeign á þessari mikilvægu auðlind. Það er þarna sem ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn bregst, þ.e. að svara ekki þessu kalli tímans en segja það eitt að engu sé verið að breyta. Þetta er reyndar ekki í samræmi við það sem ýmsir umsagnaraðilar hafa sagt um þetta frumvarp. Ég vísa t.d. í Umhverfisstofnun sem fékk sína útreið frá Orkustofnun sem fékk það hlutverk af hálfu ríkisstjórnarinnar að gefa öllum umsagnaraðilum sérstaka einkunn. Menn annað hvort dúxuðu og brilleruðu eða fengu falleinkunn samkvæmt einkunnagjöf Orkustofnunar.

Hæstv. forseti. Ég vil líka taka undir þá áherslu sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að hér væri byrjað á röngum enda, við ættum að hefja þessa vegferð með lögum um vatnsvernd og vatnavernd, þar ættum við að hefja vegferðina. Auðvitað eiga öll þau frumvörp sem tengjast vatninu, bæði vernd þess og einnig nýtingu, því að sjálfsögðu þarf einnig að setja lög um nýtingu vatnsins, þau eiga að fara saman þannig að við höfum heildaryfirsýn yfir þetta mikilvæga viðfangsefni og við eigum að gefa okkur góðan tíma til þess. Það er sjálfsagt að stefna að því að lögfesta þessa lagabálka á þessu kjörtímabili en (Forseti hringir.) þá verða líka vinnubrögðin að breytast verulega frá því sem nú er.