132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Minn málstaður er sá að íslenska þjóðin, almenningur á Íslandi, samfélagið hafi aðgang að vatninu í landinu og að vatnið teljist til almannaeignar. (Iðnrh.: Þjóðnýting.) Þjóðnýting, segir hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir.

Ég vil aðeins segja eitt varðandi Framsóknarflokkinn og vatnið, menn mega ekki kveinka sér yfir því (Gripið fram í.) að minnst sé á Framsóknarflokkinn. Ég var einvörðungu að vísa til þess að formaður þingflokks Framsóknarflokksins, Hjálmar Árnason, lýsti því yfir opinberlega á fundi fyrir fáeinum dögum að vatnafrumvarpið, ef það kæmi fram á komandi vikum, þá yrði það í mjög breyttri mynd frá því frumvarpi sem lá hér fyrir síðastliðið vor.

En aðeins um þennan málefnalega ágreining sem hér er uppi, þá leggjum við áherslu á — að með nýjum vatnalögum og með öllum þeim lagabálki sem nú er að birtast, því að gamla vatnalagafrumvarpið frá 1923 birtist í ýmsum myndum, fleiri en einu frumvarpi — að gerðar verði ákveðnar áherslubreytingar. Menn skulu vera sér mjög vel meðvitaðir um það að svo geti farið að eignaupptaka á vatni geti orðið á öðrum forsendum en menn kannski ætla. Ég minni t.d. á hvað er að gerast núna í GATS-viðræðunum þar sem Evrópusambandið hefur gert þá kröfu til margra viðskiptaríkja sinna að vatnið verði fært undir GATS-samninginn.