132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:48]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var alls ekki að kveinka mér undan því að við framsóknarmenn værum mikið í umræðunni í þessu máli, þvert á móti. Ég held að sú athygli sem Framsóknarflokkurinn fær vegna þess sé af hinu góða og að sama skapi held ég að þetta verði Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ekki til vegsauka, a.m.k. ekki í hinum dreifðu byggðum.

Hæstv. forseti. Ég spurði hv. þingmann einnar spurningar, hvort hann teldi að það frumvarp sem við værum að ræða hér hefði áhrif á aðgengi almennings að neysluvatni eða frjálsri för um vötn. Og af því að hv. þingmaður minntist á samflokksmann minn, hv. þm. Hjálmar Árnason, þá er það vissulega rétt að hann hafði ákveðna fyrirvara við þetta mál. Það er búið að gera breytingar á þessu máli á milli þinga. Meðal annars hefur verið tryggt í lagatexta að réttur almennings muni standa óhaggaður hvað varðar frjálsa för almennings um vötn. Það er geirneglt og því hefur verið breytt á milli þinga.

Í öðru lagi er kveðið á um að samráð skuli haft á milli umhverfisráðuneytisins, væntanlega undirstofnana þess, og iðnaðarráðuneytisins við gerð reglugerða er snerta tilkynningarskyldar framkvæmdir. Þetta eru veigamiklar breytingar í þá átt að færa okkur nær umhverfinu og ég hélt að hv. þm. Ögmundur Jónasson mundi gleðjast yfir þessum breyttu forsendum. Ég hafði sjálfur ákveðnar efasemdir og áhyggjur af því að frjáls för fólks væri kannski ekki nægilega geirnegld í fyrra frumvarpi og það var svo sem rætt ítarlega í nefndinni. Nú er það geirneglt og hv. þingmaður ætti að fagna því að upp úr stendur að réttindi almennings, hvort sem það er til neysluvatns, aðgengi eða frjáls för um vötn, eru tryggð í því frumvarpi sem við erum að ræða hér og hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ættu að fagna því.