132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara árétta það sem fram hefur komið, að í þessu frumvarpi eins og það liggur fyrir, eru mjög ákveðin eignarréttarákvæði og hv. þm. Birkir Jónsson sagði sjálfur í ræðustól áðan að það væri verið að festa eignarréttarákvæðin í sessi. (Gripið fram í.)

En ég legg áherslu á það sem ég hef verið að segja: Við lifum í breyttum heimi aukinna alþjóðaviðskipta, heimi þar sem verið er að taka grunnþjónustu á borð við vatn og færa inn í heim viðskiptanna. Við þurfum að verjast þessu, við þurfum að taka mið af breyttum aðstæðum.

Við þurfum líka að taka mið af ýmsu sem er að breytast í umhverfi okkar, í vistkerfinu og umgengni um það. Það er þetta sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum að kalla eftir. Við erum að kalla eftir lagasmíð sem tekur mið af þessu. Það dugar ekki að horfa alltaf aftur til ársins 1923 og segja: Við erum engu að breyta frá þeim tíma. Við lifum bara í breyttum heimi. Það eru aðrar aðstæður og við verðum að bregðast við þeim, bregðast við kalli tímans. Ríkisstjórnin fellur á prófinu um að gera það.

Við erum einnig að kalla eftir breyttri forgangsröðun. Við viljum byrja á því að ræða frumvörp sem lúta að vatnsverndinni og síðan taka alla þessa lagasmíð og hafa hana undir í einu.