132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:52]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er þess fýsandi að réttur allra til heilnæms vatns verði stjórnarskrárbundinn. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur líka varað við því að eignamenn og einkarekin grunnþjónusta geti verið skaðleg fyrir samfélagið, ekki hvað síst í hinum dreifðu byggðum. Við höfum t.d. rætt það í fjölda þingræðna þegar þetta hefur verið til umræðu, og skyld mál, að einkarekin grunnþjónusta í samfélaginu, t.d. á borð við vatnsveitur eða orkuveitur, er bæði dýrari og óhagkvæmari fyrir samfélagið og afleiðingar hennar geta verið mjög alvarlegar þegar farið er að selja þá þjónustu á markaðstorgi.

Það er ekki að ófyrirsynju að við ræðum þetta í tengslum við vatnalagafrumvarp hæstv. iðnaðarráðherra því að það vill svo til að vatnið er ein af þeim auðlindum sem hæstv. iðnaðarráðherra vill koma böndum á og vill skýra á þeim nótum sem vatnalagafrumvarpið gerir ráð fyrir, að það sé einkaeignarréttur á vatni og hann gangi öllu framar. Það er þetta sjónarmið sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð er að mótmæla. Og það er auðvitað alveg komið í ljós, t.d. í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar hér áðan, að það er spurning um að leiða þetta séreignarfyrirkomulag í lög sem staðfestir þá það sem við andstæðingar hæstv. iðnaðarráðherra í þessum efnum höfum haldið fram í umræðunni: Þetta frumvarp er ekki bara formbreytingarfrumvarp, þetta er frumvarp sem í grundvallaratriðum breytir þeim nýtingarrétti, hagnýtingarrétti, sem hefur verið á vatninu. (Iðnrh.: Nei.) Víst gerir það það. Það eru umsagnir sem við höfum því til staðfestingar sem við höfum verið að vitna í hér í dag. (Gripið fram í.)

Vitlausar umsagnir, segir hæstv. iðnaðarráðherra. Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra ætti að gæta að orðum sínum hér. Ég ætla að fá að vitna til tveggja þessara vitlausu umsagna. Önnur er frá Umhverfisstofnun og hin er frá Náttúrufræðistofnun. Það er ekki að ófyrirsynju að þessar tvær stofnanir gefa umsagnir um þetta mál.

Ég ætla fyrst að vitna í umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem dagsett er 2. mars 2005, en þar segir, með leyfi forseta:

„Í umsögn um frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum lagðist Náttúrufræðistofnun eindregið gegn þeirri fyrirætlun að skilgreina vatn … sem jarðræna auðlind og fela umsjón þess iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun. Vatn er í grundvallaratriðum frábrugðið öðrum jarðefnum að því leyti að það finnst náttúrlega í þrenns konar formi, þ.e. í föstu, fljótandi og loftkenndu formi … og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn. Stofnunin lagði áherslu á að þótt vatn geti verið orkugjafi, og þar með verslunarvara, þá sé það fyrst og fremst lífsnauðsynlegt efni öllum mönnum og öllum lífverum. Forgangsröðin varðandi umsjón með vöktun vatns er þess vegna hollustuhættir, umhverfi og orkunýting en ekki öfugt.

Vatn er lífsnauðsynleg auðlind og arfleifð alls mannskyns og alls lífríkis á jörðinni. Þessi hugsun er ráðandi í lagabálkum í nágrannalöndum okkar og kemur vel fram í vatnatilskipun ESB frá árinu 2000.“

Þetta er ein af þessum vitlausu umsögnum sem hæstv. iðnaðarráðherra kallar svo.

Ég vil halda því fram að Náttúrufræðistofnun hafi hér mjög mikið til síns máls enda leggst hún gegn því að sértæk lög um eignarhald og umsýslu með vatni séu lögfest áður en fyrir liggur hvernig vatnatilskipunin verður innleidd.

Önnur „vitlaus“ umsögn, svo vitnað sé til orða hæstv. iðnaðarráðherra, er frá Umhverfisstofnun, en sú umsögn var mjög yfirgripsmikil. Henni fylgdi sérstök greinargerð um eignarrétt eða nýtingarrétt á vatni og sömuleiðis greinargerð um stöðu vatnalaga. Hún er eins og ég segi afar ítarleg en niðurstaða hennar er m.a. þessi, með leyfi forseta:

„Samantekið telur Umhverfisstofnun að hvað varði fyrirhugaðan rétt landeigenda sé frumvarpið í andstöðu við alþjóðlegar viðmiðanir og skuldbindingar, löggjöf í nágrannalöndum, óhagstætt hagsmunum almennings og íslenska ríkisins. Ekki er tekið tillit til líffræðilegs og samfélagslegs mikilvægis vatns og nægu aðgengi að því. Leggst stofnunin því alfarið gegn því að þessi leið verði farin.“

Hæstv. forseti. Þessar tvær umsagnir fóru afar mikið fyrir brjóstið á hæstv. ráðherrum, bæði iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Forstöðumenn þessara stofnana komu í útvarpið 6. maí síðastliðinn, í þátt á Rás 1 sem heitir Samfélagið í nærmynd og tjáðu sig um þær. Hæstv. umhverfisráðherra sá síðan ástæðu til þess þremur dögum síðar, þann 9. maí 2005, að atyrða forstöðumenn þessara stofnana, hélt því fram í Speglinum í Ríkisútvarpinu að málið yrði rætt við forsvarsmenn stofnananna, sagðist hafa verið undrandi á viðbrögðum þeirra og menn hefðu gengið of langt, sérstaklega varðandi það að senda inn sérstaka álitsgerð um nýtingu og eignarrétt sem hæstv. umhverfisráðherra taldi allsendis óeðlilegt að Umhverfisstofnun legði fyrir þingnefnd. Hún sagði þetta ekki vera lögfræðilegt álitamál og það ætti einfaldlega ekki heima inni í umsögn af þessu tagi því að þetta væri hápólitískt mál.

Atyrðing hæstv. umhverfisráðherra á forstöðumönnum þessara stofnana í útvarpinu í maí í vor er auðvitað til marks um það hversu mikið umsagnir þeirra fóru fyrir brjóstið á hæstv. ráðherrum.

Í upphafi þessarar umræðu sem hér fer fram, 1. umr. um frumvarpið á þessu þingi, fullyrti hæstv. iðnaðarráðherra að stofnanir umhverfisráðuneytisins væru nú fullkomlega sáttar við frumvarpið í nýrri mynd. Nú vil ég fá staðfestingu á því frá hæstv. umhverfisráðherra, og ég vona satt að segja, virðulegi forseti, að hún sé enn þá viðstödd og að hlusta á þessa umræðu eins og hún hefur verið það sem af er þessum degi. Ég treysti því að fá hér svar frá hæstv. umhverfisráðherra áður en umræðunni lýkur, um hvort stofnanir umhverfisráðuneytisins séu fullkomlega sáttar við málið í þessum nýja búningi eins og hæstv. iðnaðarráðherra lýsti hér yfir fyrir örfáum dögum að væri. En í umræðunni varð hæstv. iðnaðarráðherra á það aumkunarverða mismæli að halda því fram að þetta frumvarp snerist eingöngu um yfirborðsvatn og afhjúpaði þá svo mikla vankunnáttu á málinu og auðvitað skortir fullkomlega dýpt í málflutning hennar um þetta þegar hún leyfir sér að mismæla sig á þann hátt sem hún gerði við umræðuna þá (Gripið fram í.) og vildi svo meina að gagnrýnin á frumvarpið væri byggð á misskilningi. Þegar hæstv. ráðherra skortir rök í pólitískri umræðu þá eru hlutirnir alltaf byggðir á misskilningi. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að venja sig af því að halda því fram að við hv. þingmenn í þessum sal séum haldin einhverjum misskilningi ef við gagnrýnum mál hennar og málflutning, því að það er ekki svo. Við erum ekki haldin neinum misskilningi um þetta mál. Við erum hins vegar í grundvallaratriðum ósammála þeirri forgangsröðun sem hæstv. iðnaðarráðherra setur hér fram.

Ég krefst þess að því verði svarað í þessari umræðu hvers vegna hæstv. iðnaðarráðherra sé svona fylgin sér í þessu máli. Hv. þm. Jóhann Ársælsson bað hana að svara því við upphaf umræðunnar hvað það væri sem ræki hana áfram. Hv. þingmaður sagði: Það er ekki einasta það að vatnalögin séu komin til ára sinna sem rekur hæstv. ráðherra áfram, það er eitthvað annað á bak við þetta. Ég krefst þess að hæstv. ráðherra svari því. Hvers vegna má ekki bíða eftir hinum frumvörpunum sem við, sem höfum andmælt þessu máli, teljum að eigi að fara hér samferða í gengum þingið? Þá erum við að tala um vatnsverndarlagafrumvarp og endurbætt frumvarp til laga um nýtingu og rannsóknir á jarðrænum auðlindum. Hver er málefnaleg ástæða þess að ríkisstjórnin getur ekki sett þessi þrjú frumvörp samferða í gengum þingið þar sem iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd gætu fjallað um málin sameiginlega og hægt væri að finna sameiginlega niðurstöðu sem sátt gæti ríkt um?

Ég er sannfærð um að með öðrum vinnubrögðum en þessum bolabrögðum og þessum einstrengingshætti ríkisstjórnarinnar mætti ná hér góðri niðurstöðu. En hæstv. ríkisstjórn skortir auðvitað skynsemi til þess að fara þá leið og mér þykir það mjög miður.

Hæstv. forseti. Ég tel að í þessari umræðu kristallist sá grundvallarágreiningur stjórnarandstöðu og ríkisstjórnarflokkanna og tel að hér sé mál sem er virkilega þess virði að við reynum að lenda í einhverri sátt. Ég held að ríkisstjórnin hafi í hendi sér leið til þess að gera það og nú skulum við bara láta reyna á skynsemi hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum.