132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:29]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög áhugavert að fara í gegnum þetta frumvarp. Það sorglega er að við erum að gera það enn á ný. Umræðan fór fram á síðasta þingi og mig minnir að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi farið rækilega í gegnum frumvarpið og ýmsa orðaleppa og sérkennilegt orðalag á fundum nefndarinnar. Mér finnst þetta sorglegt.

Til dæmis má nefna orðið „grunnvatn“. Einhvern tíma lærði ég jarðfræði í menntaskóla, en maður les hér skilgreiningu á því hvað grunnvatn er:

„… allt vatn neðan jarðar í samfelldu vatnslagi í gegnmettuðum jarðlögum, kyrrstætt eða rennandi, sem er í beinni snertingu við jarðlögin.“

Ef við veltum þessu fyrir okkur: Hvað er vatn sem er neðan jarðar í samfelldu vatnslagi? Samfelldu. Hvað er þetta „samfellt“? Það væri ágætt að hæstv. iðnaðarráðherra færi í gegnum þetta með okkur. Við áttum okkur ekki á þessu , a.m.k. ekki ég. Hún hlýtur að hafa legið yfir þessu frumvarpi og hefur lagt mjög mikla áherslu á að keyra þessa vitleysu í gegn, hvað eftir annað. Hún mætti fara í gegnum þetta hvað þetta þýðir. Síðan er talað um vatn sem er neðan jarðar, kemur hér fram sem er í beinni snertingu við jarðlögin. Hvernig má annað vera, frú forseti, en að vatn sem er neðan jarðar sé í beinni snertingu við jarðlögin? Ég átta mig ekki á þessu en ég sé að hv. formaður iðnaðarnefndar, sem hefur örugglega lesið þetta aftur og aftur og betur en nokkur annar hér, getur (Gripið fram í: Ágreiningur í Stjórnarráðinu.) útskýrt hvað hér er á ferðinni. Hvað er verið að segja hérna, að vatn geti verið neðan jarðar en mögulega ekki í snertingu við jarðlögin? Þetta er nokkuð sem ég átta mig ekki á og fróðlegt væri ef hv. þm. (Forseti hringir.) Birkir Jón Jónsson segði okkur frá þessu.