132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:52]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að koma inn á eitt atriði í lokin og hv. þingmaður nefndi það einmitt og það varðar umsögn Lögmannafélagsins. Þannig er að smávegis mistök hafa orðið í sambandi við endurútgáfu frumvarpsins og endurprentun. Á einum stað er brugðist við umsögn Lögmannafélagsins, það er sem sagt í V. kafla, í almennum athugasemdum, en í VIII. kafla á bls. 21 hefur láðst að taka út orðin „fyrst og fremst“. Þetta vil ég benda hv. þingmönnum á og verður að sjálfsögðu frekar til umfjöllunar í nefndinni. En það var ætlan okkar að taka tillit til þessarar umsagnar vegna þess að Lögmannafélagið lítur svo á að hér sé eingöngu um formbreytingu að ræða og þess vegna sé best að hafa þessi orð ekki í textanum og brugðist var við því.

Það er fleira sem hv. þingmaður nefndi, t.d. vatnafélög og ekki væri ástæða til að hafa þetta í lagatexta. Við töldum að svo væri. Auðvitað fer þetta allt til umræðu í nefndinni en það varð niðurstaðan að hafa þessi ákvæði inni.

Síðan talaði hann um 11. gr. og að ekki hefði verið vandað til verka í sambandi við textann. Ég vil ekki taka undir það. Ég tel að þetta hafi allt saman verið unnið af mikilli vandvirkni en sjálfsagt eru mannanna verk aldrei 100%. En í öllum aðalatriðum held ég að alveg megi fullyrða að þetta er vel unnið frumvarp, enda er búið að leggja gríðarlega vinnu í það og von mín er sú að það fái greiða leið í gegnum þingið.