132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:57]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að sá sáttatónn sem er í hæstv. ráðherra bendi til þess að í nefndinni fari fram umræður um málið í heild sinni, menn fari yfir það með þeim sem um það hafa fjallað og fari að nýju yfir þær umsagnir sem lágu fyrir og munu liggja fyrir eftir að hafa skoðað þetta mál betur. Ég vona satt að segja að niðurstaðan verði sú að menn geti fjallað um málið í heild sinni, menn geti skoðað það, fengið skýra vitneskju um hvaða lagaákvæði munu gilda um vatn að öðru leyti en hér er verið að stofna til með þessu frumvarpi en hafi heildstæða yfirsýn yfir alla þá lagabálka sem eiga að taka við af lögunum frá 1923 og geti þess vegna gert sér grein fyrir því hvort sá hluti þeirra sem á að vera í þessum lagabálki er eins og hann þarf að vera eða hvort einhverjar breytingar þurfi á honum að gera.