132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Aðstoð við fórnarlömb náttúruhamfaranna í Pakistan.

[13:37]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Náttúruhamfarir fara alltaf verst með þá sem minnst hafa og fátækastir eru og íbúar Kasmír hafa búið við erfitt hlutskipti, ekki bara undanfarin ár eða missiri heldur í tæplega 60 ár, allt frá því að Indlandi var skipt upp. Kasmír er á stríðssvæði og jarðskjálftinn sem reið þar yfir gerði líf fólksins sem þar býr enn erfiðara en það hefur verið og hefur það þó verið erfitt hingað til.

Það hlýtur að vera sameiginlegur vilji okkar sem hér störfum að veita meira fé til hjálparstarfsins í Kasmír. Sú sem hér stendur vill ekki trúa öðru. Nú standa yfir safnanir hjá Hjálparstarfi kirkjunnar og hjá Rauða krossi Íslands. Almenningur hefur tekið vel við sér og það væri við hæfi að ríkisstjórn Íslands jafnaði þá krónutölu, krónu fyrir krónu sem almenningur reiðir fram í þessar safnanir og sendi með til Kasmír til þess að fara í bráðustu aðgerðirnar sem þar þarf að ráðast í.

Þar er staðan þannig að börn sem lentu í jarðskjálftanum og lifðu hann af og slösuðust, beinbrotnuðu eða annað slíkt, eru örkumla vegna þess að það þarf að aflima þau af því að það eru ekki til nein lyf, það er ekki hægt að hjálpa þeim, það vantar spelkur, það vantar verkjalyf. Það er hræðilegt að þurfa að segja þetta en þetta er sá veruleiki sem fólkið þarna býr við og við hljótum að geta gert betur, hæstv. forseti.