132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Aðstoð við fórnarlömb náttúruhamfaranna í Pakistan.

[13:39]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Hér er vakin athygli á mikilli neyð, neyð í Pakistan og ekki síst í Kasmírhéraði, líklega meiri neyð en nokkurn órar fyrir þar sem hundruð þúsunda eða jafnvel milljónir eru í bráðri hættu ef svo má segja, ekki síst nú þegar vetur gengur í garð eftir hinn harða jarðskjálfta sem þar var. Í þessu samhengi er rétt að rifja upp þegar eldgos varð í Vestmannaeyjum, þegar snjóflóð urðu á Súðavík og Flateyri með hörmulegum afleiðingum. Þá brugðust stjórnvöld hér afar fljótt og vel við, þá brást alþjóðasamfélagið vel við og nægir þar að nefna nágranna okkar Færeyinga en það sem skipti kannski mestu máli var samhugur íslensku þjóðarinnar með bræðrum okkar og systrum sem áttu um sárt að binda.

Nú þegar við upplifum þessar hörmungar í Pakistan er rétt að hafa þetta í huga og ég tel að ríkisstjórn okkar hafi brugðist mjög fljótt og vel við en það er líka rétt að minna á það að árangur til þess að sýna samhug í verki er aldrei meiri en þegar íslenska þjóðin stendur saman og þess vegna tek ég undir það með hv. málshefjanda að söfnun Rauða krossins og þjóðkirkjunnar, ásamt framlagi ríkisstjórnarinnar, trúi ég að muni sýna það að Íslendingar finna til með meðbræðrum sínum og systrum.