132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Aðstoð við fórnarlömb náttúruhamfaranna í Pakistan.

[13:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það þarf að sjá hálfri milljón manna fyrir húsnæði. Miklu fleira fólki þarf að sjá fyrir vatni, lyfjum, mat og nú er að kólna í veðri sem er erfitt fólki þar sem allt lífið hefur gengið úr skorðum. Það ber að þakka alla þá viðleitni sem sýnd er. Hér hefur verið vísað í safnanir sem fram fara á vegum Hjálparstofnunar kirkjunnar og Rauða kross Íslands. Menn hafa nefnt framlag frá Reykjavíkurborg upp á 5 millj. og 18,1 millj. frá ríkinu. Allt er þetta ágætt svo langt sem það nær en það nær bara ekkert óskaplega langt. Við höfum ákveðið að leggja fram tillögu um að framlagi sem fer í hjálparstarf til hernaðarbandalagsins NATO verði beint til hörmungarsvæðanna í fjöllunum í Kasmír.

En ég vil taka undir það sem fram hefur komið hjá mörgum hv. þingmönnum í þessari umræðu að við eigum einnig að hugsa sjálf hvert og eitt hvað við erum reiðubúin að leggja af mörkum. Ábyrgðin er okkar allra.