132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Staða jafnréttismála.

[13:58]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Tilefni þessarar umræðu eru hátíðahöldin og baráttudagurinn 24. október í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins. Dagurinn hefur ekki síst gildi fyrir mikla og lifandi umræðu sem varð um margvíslegar hliðar jafnréttisbaráttunnar, bæði í aðdraganda dagsins og í kjölfar hans. Umræðan dró m.a. fram í sviðsljósið þann mikla mun sem er á launum milli hefðbundinna karla- og kvennastétta og lág laun kvenna sem hafa helgað sig umönnun aldraðra og ungu kynslóðarinnar. Hún dró fram hinn kynbundna launamun og baráttan gegn kynbundnu ofbeldi setti sterkan svip á umræðuna.

En nú spyrja margir: Hvað svo? Breytir það einhverju að 50 þúsund kjósendur sýndu í verki stuðning sinn við baráttuna fyrir jöfnum rétti og jafnri stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi? Ritið Konur og karlar 1975–2004 sýnir svart á hvítu hver innbyrðis staða kynjanna er á Íslandi í dag. Þar kemur m.a. fram að mestur tölulegur árangur hefur þrátt fyrir allt náðst á vettvangi stjórnmálanna en á fjölmörgum öðrum sviðum hefur allt of lítið breyst á þessu tímabili. Þrjátíu ár eru í sjálfu sér ekki langur tími í því samhengi að baráttan snýst um að kollvarpa kerfi sem hefur varað í árþúsundir og hlutverkaskiptingu sem bæði kynin voru lengst af sátt um. En 30 ár eru drjúgur hluti af lífi manns og það hafa sannanlega í íslensku samfélagi á flestum öðrum sviðum orðið byltingarkenndar breytingar á mun skemmri tíma.

Það gætir skiljanlega óþolinmæði. Við eigum ekki að vera að umburðarlynd gagnvart misrétti. Við eigum að agnúast út í öll atriði, bæði smá og stór, því hér duga hvorki vettlingatök né hænuskref. Við þurfum byltingu, sagði fulltrúi kvennahreyfingarinnar, Anna Kristín Gunnarsdóttir, í ræðu sinni á fundinum. Hún lagði áherslu á að sjá heildarmyndina. Það skiptir öllu máli að sjá heildarmyndina því birtingarmyndirnar eru svo margvíslegar og að finna út hvar fyrirstaðan er, eins og fundastýran, Edda Björgvinsdóttir, lagði áherslu á í blaðaviðtali. Löggjöfin er sannarlega ekki fyrirstaða í þeim áfanga en nú nýlega var því náð að hún er kynhlutlaus en að vísu samtímis á ýmsum sviðum kynblind.

Frú forseti. Ein meginfyrirstaðan liggur í hugarfari og viðhorfum sem finnast úti í samfélaginu og í hefðbundinni verkaskiptingu karla og kvenna. Jafn fæðingarorlofsréttur karla er stærsta skrefið í þá átt en það tekur tíma að ná fram fullum áhrifum hans. Sumir sem eiga eftir að njóta hans eru enn á barnsaldri að ógleymdum öðrum sem hafa þegar misst af vagninum. Konur almennt bera óumdeilt meginábyrgðina á börnum og heimilishaldi og sækja þar af leiðandi hlutfallslega færri konur en karlar í langan og óreglulegan vinnudag. Þær sækja færri en karlar hlutfallslega í ábyrgðarstöður í fyrirtækjum og innan stjórnsýslunnar og á framboðslista stjórnmálaflokkanna. Konur þurfa sérstaka hvatningu sem þær fá með því að kallað sé eftir kröftum þeirra til að tryggja að ísenskt samfélag fari ekki á mis við helming mannauðs síns en nýti auðinn í krafti þeirra, menntun og hæfni.

Raunin er sú að sífellt fleiri konur velkjast ekki í nokkrum vafa um hæfni sína og kynsystra sinna almennt til að axla ábyrgð til jafns við karla á öllum sviðum íslensks samfélags. Konur sem komist hafa samsíða körlum, hvort sem er hér á Alþingi, í sveitarstjórnum, í stjórnum fyrirtækja eða stjórnunarstöðum í opinberum rekstri eða einkarekstri, eru öðrum vissulega fyrirmyndir. En jafnframt eru þær fyrst og fremst sýnishorn af því sem konur geta almennt jafnt og karlar. Þess vegna er unnið gegn jafnréttinu með því að taka kyn út af borðinu sem sérstakan verðleika en staglast á hæfninni. Það gera margir þeir sömu og halda á lofti fjölbreytileika og gildi þess fyrir samfélagið að virkja auðinn í krafti kvenna. Ef kynið er ekki verðleiki hverju skiptir þá hlutur kynjanna í stjórnum eða stjórnunarstöðum fyrirtækja, sveitarstjórnum eða landstjórninni? Það skilar okkur ekkert áleiðis að leita að sökudólgum og það er allra góðra gjalda vert að baráttan fyrir jafnrétti kynjanna er ekki lengur skilgreind sem stríð milli karla og kvenna. Ábyrgðin liggur á víð og dreif í samfélaginu og hluti hennar liggur hjá stjórnvöldum og ég spyr, frú forseti, hæstv. félagsmálaráðherra um þau ummæli hans að gera þurfi jafnréttismálum hærra undir höfði og setja þau undir forsætisráðuneytið á pall með öðrum mannréttindum og svo spyr ég hæstv. félagsmálaráðherra jafnframt: Hver verða næstu skref hans og ríkisstjórnarinnar í ljósi baráttudagsins 24. október sl.?