132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Staða jafnréttismála.

[14:08]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Konur sætta sig ekki við að vera 2. flokks þjóðfélagsþegnar, sagði frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, 24. október sl. af tilefni sem við öll þekkjum.

Málshefjandi, hv. þm. Jónína Bjartmarz, sagði að kollvarpa þyrfti kerfi sem varað hefði í árþúsundir. Það eru orð að sönnu. En við verðum líka að horfast í augu við það að okkur hefur tekist illa til þótt ýmislegt hafi áunnist á undanförnum árum og áratugum við að gera það sem þarf að gera, þ.e. að kollvarpa hinu gamla kerfi. Við búum við mikinn lýðræðishalla í þessu samfélagi. Hann lýsir sér m.a. í því að konur eru tæplega þriðjungur fulltrúa í sveitarstjórnum og á Alþingi Íslendinga, konur hafa í heildartekjur 65% af heildartekjum karla og ekkert virðist þokast í þeim efnum. Við getum ekki látið sem þriðjungshlutfallið, þriðjungsjafnréttið, ef jafnrétti skyldi kalla, geti verið það sem við sættum okkur við 30 árum eftir kvennafrídaginn góða.

En ríkið þarf líka að sýna gott fordæmi, bæði með laga- og reglugerðasetningu og með því hvað sagt er og gert. Þó að gæðavottun starfa eða fyrirtækja geti verið allra góðra gjalda verð verð ég að segja að það hlýtur að duga betur að færa Jafnréttisstofu sömu tæki og Samkeppniseftirlit hefur á vinnumarkaði. Hver er munurinn á einstaklingum og fyrirtækjum á markaði í raun og veru? Hann er enginn, frú forseti.

Að lokum vil ég segja: Ég fagna því að ráðherrar og þingmenn Framsóknarflokksins taka hér upp og undir stefnu Samfylkingarinnar um að færa jafnréttismálin undir forsætisráðuneytið. Við höfum lengi verið þessarar skoðunar og fögnum hverjum þeim sem vill taka þátt í því verkefni með okkur.