132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Staða jafnréttismála.

[14:10]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Þann 24. október sl. komu konur saman, ekki aðeins hér í Reykjavík heldur um allt land til að minnast kvennafrídagsins sem haldinn var með eftirminnilegum hætti árið 1975. Jafnréttisbaráttan hefur vissulega skilað árangri en samt ekki þeim árangri sem við vildum á öllum sviðum.

Fæðingarorlof feðra var einn mjög mikilvægur áfangi og Ísland er í einu af toppsætunum í jafnréttismálum. Konur og karlar bera jafna ábyrgð og þess vegna er mjög ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra muni efna til karlaráðstefnu 1. desember nk.

Ef tækifæri til að sækja fram til valda og áhrifa halda áfram að vera háð kyni verða hæfileikar og kraftar kvenna áfram illa nýttir. Stundum hefur jafnréttisbaráttunni verið líkt við færeyskan dans, það eru tvö skref áfram og eitt aftur á bak. Og hvað er það sem stendur í vegi fyrir því að allir hafi jöfn tækifæri í samfélaginu? Eru það hefðir, eru það viðhorf eða venjur sem valda því að enn þá er launamismunur kynjanna 14% hér á Íslandi? Og hvers vegna veljast færri konur en karlar til stjórnunarstarfa á Íslandi, hvað veldur?

Ef litið er á tölur frá Frjálsri verslun yfir konur í stjórnum 100 stærstu fyrirtækja landsins er hlutfallið aðeins 11,4%. Aðeins fjórar konur eru stjórnarformenn í 100 fyrirtækjum og aðeins eitt fyrirtæki af þessum 100 er með meiri hluta kvenna í stjórn. Að fjölga konum í stjórnum er ekki einungis tækifæri fyrir konur, heldur tækifæri fyrirtækja til að efla forustusveit sína. Fyrirtækin þurfa svo sannarlega á krafti kvenna að halda.

Áfram, stelpur.