132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Staða jafnréttismála.

[14:15]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz kærlega fyrir að taka jafnréttismálin til umræðu utan dagskrár. Í sjálfu sér má líta á þessa umræðu hér sem mjög ákveðna og alvarlega gagnrýni hv. þingmanns á störf hæstv. félagsmálaráðherra. Þetta voru hugguleg skoðanaskipti en að baki býr mikil alvara og gagnrýni, tel ég.

Við í Frjálslynda flokknum látum okkur jafnréttismálin varða og höfum samþykkt jafnréttisáætlun sem við förum stíft eftir en að undanförnu hefur verið rætt talsvert um launamun kynjanna. Það er mín skoðun að ef nást eigi árangur á þessu sviði eigi að beina athugunum og úrræðum að þeim mun sem er óútskýrður á launum kynjanna og þá á ég við það sem ekki er hægt að skýra út með mismunandi vinnuframlagi kynjanna. Ég tel að umræðan megi ekki heldur einskorðast við hlutföll kynjanna í æðstu lögum þjóðfélagsins, hæstaréttardómara eða í stjórnum fyrirtækja, heldur eigi hún einnig að snúast um kjör fólksins í landinu, hins almenna Íslendings.

Það er ekki hægt að líta fram hjá því samt sem áður að heildarlaun kvenna eru lægri en heildarlaun karla. Þess vegna ættu sérstaklega framsóknarmenn sem brydduðu upp á þessari umræðu að íhuga það að þeir hafa verið að breyta skattstefnunni á þann veg að færa skattbyrðina á þá sem hafa lægri launin af þeim sem hafa hærri launin. Það má því segja með fullum sanni að framsóknarmenn hafi einfaldlega verið að færa skattana af körlum og á konur. Mér finnst þetta íhugunarefni fyrir umræðuna og tel að sú gagnrýni sem kemur fram á störf ráðherra eigi sér djúpar rætur í Framsóknarflokknum.

Það kom fram fyrr í umræðunni í þinginu að einhver sátt væri um launamuninn og þennan aukna ójöfnuð í þjóðfélaginu en ég tel svo ekki vera, frú forseti.