132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Staða jafnréttismála.

[14:24]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég vil í seinni ræðu minni byrja á að hafa orð á því að jafnréttisbaráttan er ekki einkamál neins eins stjórnmálaflokks hér á þingi. Jafnréttisbaráttan er líka mál fyrir ríkisstjórnarflokkana á þingi. Alveg á sama hátt og enginn stjórnmálaflokkur hér á þingi framar öðrum getur þakkað sér einhvern árangur er það í raun svo að stjórnarliðarnir hérna, konur jafnt sem karlar, hafa fullan rétt á skoðunum sínum þegar kemur að jafnréttismálum.

Ég sagði í ræðu minni að ábyrgðin á stöðunni eins og hún er liggur á víð og dreif í samfélaginu. Hún liggur síst hjá Alþingi vegna þess að löggjöfin er orðin kynhlutlaus. Körlum og konum er hvergi mismunað í löggjöfinni og það er ekki hægt endalaust að kalla eftir því að stjórnvöld beri ábyrgð á þessu. Þetta liggur í viðhorfum samfélagsins, þetta liggur í viðhorfum hjá aðilum vinnumarkaðarins og mér finnst það ekki umræðunni um jafnréttismál til framdráttar þegar tilteknir stjórnmálaflokkar vilja af önugheitum eigna sér hana og bregðast önuglega við þegar stjórnarliðar á þingi vilja ræða þessi mál. Það er ekki jafnrétti til framdráttar.

Þessi ábyrgð liggur víða og það eru miklu fleiri en stjórnvöld og Alþingi Íslendinga sem þurfa að taka til hendinni. Það þarf að gerast hjá aðilum vinnumarkaðarins, það þarf að gera í kjarabaráttunni og það þarf að gera innan stjórna fyrirtækjanna og tryggja framgang kvenna í stjórnunarstöður, í betur launaðar stöður og í stjórnir fyrirtækja á almennum vinnumarkaði. Ég árétta það hér.

Spurningar mínar til hæstv. félagsmálaráðherra beindust að því hver væru næstu skref hans og ríkisstjórnarinnar. En sem betur fer, eins og kom fram í ræðum margra í þessari umræðu, þá liggur ábyrgðin ekki bara þar. Við verðum að hafa þokkalega víða sýn á þetta og það gengur ekki til lengri tíma litið ef ákveðnir þingmenn (Forseti hringir.) halda að þeir og flokkar þeirra búi að þessu máli einir eða séu þeir einu sem eru þessu máli til framdráttar.