132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:39]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var á margan hátt merkilegt innlegg hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að koma með þessar spurningar sem hann hefur lagt fyrir mig í andsvari og gefur mér þar með náttúrlega mjög lítinn tíma til að ræða þær.

Hann spyr mig hver verði gengisvísitalan og hver verði viðskiptahallinn. Til að svara því vísa ég einfaldlega í spár fjármálaráðuneytisins sem við höfum unnið með. Ég er ekki spámannlegar vaxinn en þeir sem þar hafa lagt upp sínar spár frekar en margir aðrir vegna þess að það hefur náttúrlega verið mikið um að vera í hagkerfi okkar og efnahagslífi og allar tölur sýna það. Við erum hér að fjalla um stórauknar tekjur ríkissjóðs á einstökum tekjuliðum sem sýnir hvað er að gerast hjá okkur. Og talandi um viðskiptahalla þá er eitt af því sem hefur valdið frávikum frá spám hin gríðarlega einkaneysla sem hefur vaxið hér á árinu. Ég hef auðvitað margoft rætt það og tel að þjóðin þurfi nú aðeins að fara að gá að sér í þeim efnum og draga saman seglin í einkaneyslunni.

Varðandi þessar spurningar hv. þingmanns get ég ekki svarað þeim öðruvísi en að vísa til þeirra spáa sem liggja til grundvallar því sem við erum að fjalla um.