132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:40]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi atriði, gengisþróunin og viðskiptahallinn, eru ein af grundvallaratriðum sem hafa áhrif á stöðu efnahagslífsins.

En víkjum þá að öðru atriði sem mig langar líka til að heyra hjá hv. formanni fjárlaganefndar. Á fjárlagalið utanríkisráðuneytisins á fjáraukalögum er lagt til á fjáraukalögum að veittar verði 50 millj. kr. til að mæta uppsöfnuðum halla á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins og auk þess verði veitt 276 millj. kr. framlag til sendiráða, m.a. til að mæta þar uppsöfnuðum halla vegna reksturs sendiráða á fyrri árum.

Með vísan til fjárreiðulaga ætti þetta ekki að vera heimilt, að birta halla með þessum hætti og koma með hann inn í fjáraukalög. Þetta hefði átt að takast fyrr þegar ljóst var að hverju stefndi. Að vera að koma með svona gríðarlega háar upphæðir eða á fjórða hundrað milljón kr. á eitt ráðuneyti vegna uppsafnaðs halla fyrri ára hlýtur að vera mjög grafalvarlegt mál.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hv. formann fjárlaganefndar: Hvað verður gert til að fara ofan í fjársýslu af því tagi sem kemur fram hjá utanríkisráðuneytinu í ljósi þeirra reglna fjármálaráðuneytisins — og hefur það verið kynnt fyrir fjárlaganefnd — sem beita skuli stofnanir og ráðuneyti sem umgangast fjárlög ríkisins (Forseti hringir.) af slíkri léttúð? Hvernig verður því varið varðandi utanríkisráðuneytið?